20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Leikhópurinn Hnoðri í norðri tók þátt í leiklistarhátíð í Makedóníu
Leikhópurinn Hnoðri í norðri tók þátt í barnasviðslistahátíð sem haldin var í Makedóníu nú í ágúst. Hópurinn sýndi verkið Ævintýri á aðventunni og nú í fyrsta sinn á sviði, en verkið hefur ótal sinnum áður verið flutt í hinum ýmsu grunnskólum.
Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri hlaut Eyrarrósina í vor. Honum var boðin þátttaka á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Bitolino sem fram fór í Norður-Makedóníu en henni lauk í liðinni viku. Hátíðin er tileinkuð sviðslistum fyrir börn og ungmenni, en auk fjölbreyttra sýninga víðs vegar að úr heiminum, fara fram vinnusmiðjur, kynningar og fundir um barnamenningu.
Hnorði í norðri var stofnaður í ársbyrjun 2022 og var fyrsta sýning hópsins jólaóperan Ævintýri á aðventunni“eftir hirðskáld hópsins, Þórunni Guðmundsdóttur og var farið með það á hátíðina. Í verkinu er fylgst með systrunum Sollu (sem fylgir jólalögum og ætlar að vera „á bláum kjól“) og Gunnu (sem Solla skikkar til að vera „á nýju skónum“) í jólagjafaleiðangri, en á leiðinni hitta þær nokkrar forhertar íslenskar jólaverur. Flytjendur eru söngkonurnar Björk Níelsdóttir og Erla Dóra Vogler ásamt Jóni Þorsteini Reynissyni söngvara og harmonikkuleikara, sem einnig fer með hlutverk Jólakattarins. Leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir og búningahönnuður Rósa Björg Ásgeirsdóttir.
Á aðventunni 2022 var sýningin flutt á 25 stöðum fyrir 28 grunnskóla á Norðurlandi í samstarfi við List fyrir alla og með fjölda góðra styrkja. Tæplega 2000 börn, allt frá Vopnafirði til Hvammstanga, sáu sýninguna.
Mörg járn í eldinum
Hópurinn er með mörg járn í eldinum. Fyrir komandi jól verður Ævintýri á aðventunni sýnt í Salnum á Aðventuhátíð í Kópavogi og í beinu framhaldi í Samkomuhúsinu á Akureyri í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Þá er í undirbúningi mikil nýársgleðisýning til flutnings snemma árs 2024 þar sem teflt er saman íslenskum þjóðsögum tengdum nýárinu og þrettándanum og hins vegar evrópskri nýársgalahefð. Sýningin, sem hlotið hefur nafnið Skoffín og skringilmenni, verður af tvennum toga - annars vegar verður boðið upp á barnaútgáfu fyrir grunnskóla og hins vegar kabarettlegri fullorðinsútgáfu til sýningar í samkomuhúsum á Norðurlandi.