Framtíðardagar Háskólans á Akureyri Tengsl við atvinnulífið og næstu skref á vinnumarkaði
Háskólinn á Akureyri stendur fyrir Framtíðardögum fimmtudaginn 13. mars. Framtíðardagar gefa stúdentum einstakt tækifæri til að kynnast atvinnulífinu. Markmið dagskrárinnar er að veita stúdentum innsýn í störf fyrirtækja sem getur hjálpað þeim að átta sig á því hvað er í boði á vinnumarkaði og að taka næstu skref á starfsferli sínum. Viðburðurinn er öllum opinn en um er að ræða góðan vettvang fyrir einstaklinga sem eru að huga að næstu skrefum hvort sem það er varðandi nám eða í atvinnulífinu. Einnig eru Framtíðardagar góður vettvangur fyrir fyrirtæki til að kynna starfsemi sína.
„Það er mikilvægt að vera meðvituð um starfsferilinn og hvernig hann getur þróast og hvað þarf að hafa í huga þegar þátttaka á vinnumarkaði er undirbúin. Framtíðardagar geta hjálpað stúdentum að koma auga á tækifæri og nýjar hugmyndir geta kviknað,“ segir María Jónsdóttir, náms- og starfsráðgjafi við Nemendaráðgjöf HA og er skipulag dagsins í þeirra höndum.
Opinn fyrirlestur kl. 12.30
Helga Sigrún Hermannsdóttir, verkfræðingur í hagnýtri efnafræði og stofnandi Dóttir Skin mun heimsækja HA og flytja erindi opið öllum kl. 12:30. Helga Sigrún starfar sem vörustjóri hjá Dóttir Skin en hún hefur brennandi áhuga á efnafræði, nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Sjálf hefur hún farið óhefðbundnar leiðir í sinni vegferð. Helga Sigrún vinnur nú bæði að uppbyggingu vörumerkis síns, Dóttir Skin, og rannsóknarverkefni sem snýr að nýrri tækni í þróun sólarvarna. Í erindinu mun hún deila reynslu sinni af því að láta drauma rætast og þeim áskorunum sem fylgja. Auk þess hvernig menntun, sköpunargleði og smá kjarkur geta opnað dyr óvænta tækifæra. Skipuleggjendur hvetja stúdenta, starfsfólk og gesti til þess að nýta sér þetta einstaka tækifæri sem ætti svo sannarlega að veita innblástur.
Gott samstarf Framtíðardaga og Starfamessu
Framtíðardagar eru haldnir í framhaldi af og í samstarfi við Starfamessu grunnskólanna þar sem grunnskólanemum Akureyrar og nágrennis gefst kostur á að fræðast um störf og menntun og kynnast fyrirtækjum. Náms- og starfsráðgjafar grunnskóla á Akureyri hafa veg og vanda af Starfamessu og er það sönn ánægja fyrir HA að fá að vera með í því verkefni. Grunnskólanemar koma í heimsókn fyrir hádegi en í hádeginu taka við Framtíðardagar þar sem stúdentum og öðrum gefst kostur á að kynna sér starfsemi fyrirtækjanna og velta fyrir sér undirbúningi fyrir atvinnulífið.
Öll velkomin
Framtíðardagar hefjast kl. 12:00 á fimmtudaginn og hvetjum við öll til þess að mæta, rölta hring um svæðið, efla tengslanetið og mæta á erindi Helgu Sigrúnar kl. 12.30. Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar.