Langflestir foreldrar á Akureyri telja að barnið sitt fái hollt fæði í leikskólanum

Samkvæmt nýjustu upplýsingum úr Skólapúlsinum telja 97% foreldra á Akureyri að barnið sitt fái hollt fæði í leikskólanum. Niðurstöður benda þó til þess að börn og unglingar í eldri bekkjum grunnskóla Akureyrar mættu borða meira af ávöxtum og grænmeti. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Skólapúlsinn er annars vegar nemendakönnun sem lögð er fyrir börn í 6.-10. bekk á hverju ári og hins vegar foreldrakönnun sem lögð er fyrir foreldra leik- og grunnskólabarna annað hvert ár. Samkvæmt niðurstöðum ársins 2020 eru 74% foreldra barna í grunnskólum frekar eða mjög ánægðir með skólamáltíðir, en eins og áður segir telja nær allir foreldrar að barnið sitt fái hollt fæði í leikskólanum. Þegar nemendur á aldrinum 11-16 ára eru spurðir um grænmetis- og ávaxtaneyslu kemur í ljós að 22% borða grænmeti tvisvar eða oftar á dag og 32% borða tvo eða fleiri ávexti á dag. Hlutfallið hefur frekar lækkað á undanförnum árum, samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.

Töluverð umræða var um matseðla í skólum Akureyrarbæjar nýverið og hvort þeir standist kröfur um góða næringu. Á fundi fræðsluráðs á dögunum var tekið fyrir matseðlar í leik- og grunnskólum bæjarins, annars vegar og hins vegar ósk um að hægt verði að velja um jurtafæði í mötuneytum leik- og grunnskólanna. Formaður fræðsluráðs Akureyrarbæjar sagði í samtali við Vikublaðið að áhersla sé á að hafa fjölbreytt úrval fæðuflokka og bjóða upp á hefðbundinn íslenskan heimilismat. 

Nýjast