20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Krefjandi og annasöm ár en alveg frábær
„Þetta hafa verið frábær ár og ef ég mætti velja hvort ég mundi fara aftur í þetta starf myndi ég hiklaust segja já,“ segir Björn Snæbjörnsson fráfarandi formaður Einingar-iðju. Hann lét af störfum formanns félagsins á aðalfundi fyrr í vikunni, en næsta mánudag, á sjálfan verkalýðsdaginn, 1. maí eru 41 ár frá því hann hóf störf hjá Verkalýðsfélaginu Einingu. Hann fagnaði 70 ára afmæli sínu fyrr á árinu. Björn mun starfa á skrifstofu félagsins fram á haust.
Björn er fæddur á Nolli í Grýtubakkahreppi og ólst upp við öll almenn landbúnaðarstörf. Hann flutti til Akureyrar árið 1973 og sinnti ýmsum störfum í bænum, var m.a. svína og nautahirðir en lengst af starfaði hann í byggingavinnu. Hann hóf störf á skrifstofu félagsins vorið 1982
Auk þess að standa í brúnni í stærsta verkalýðsfélagi landsbyggðarinnar var Björn formaður Starfsgreinasambandsins um 12 ára skeið en lét af því starfi á þingi þess í fyrravetur .Starfsævin hefur verið annasöm en Björn lítur sáttur til baka og segist hvergi hafa annars staðar vilja vera.
Gerir mann ekki vinsælan
„Það er gefandi að umgangast fólkið í félaginu og ekki síst þegar við náum árangri fyrir þeirra hönd og aukum við réttindi okkar félagsmanna. Þessi ár hafa oft verið ansi kerfjandi og starfið annasamt, en ég myndi þó kjósa þennan starfsferil aftur ef það væri í boði,“ segir Björn. „Oft hafa verið umbrotatímar og að vera formaður í stéttarfélagi er ekki eitthvað sem gerir mann vinsælan heldur er oft gremja yfir einhverju látin bitna á formanni í umræðunni.“
Á aðalfundinum hvatti hann þá sem taka við keflinu og minnti á að stærsta verkalýðsfélag landsbyggðarinnar og annað stærsta innan SGS ætti að vera í forystu innan hreyfingarinnar, þar væru mestu möguleikarnir á að hafa áhrif.“ Það að vera í stafni tryggir að þið hafið áhrif og vinnið þannig best að hagsmunamálum ykkar,“ sagði Björn.