Kostnaður við framleiðsluna vex segir Halldóra Kristín Hauksdóttir nýkjörinn formaður Deildar eggjabænda

Halldóra Kristín Halldórsdóttir nýkjörinn formaður Deildar eggjabænda. Hún rekur ásamt mági sínum, s…
Halldóra Kristín Halldórsdóttir nýkjörinn formaður Deildar eggjabænda. Hún rekur ásamt mági sínum, systur og sambýlismanni eggjabúið Grænegg í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd.

„Eggjabændur eru um þessar mundir á lokametrunum að uppfylla mjög kostnaðarsamar aðgerðir við bú sín, en miðað er við að búið verði að uppfylla allar reglur sem snúa að aðbúnaði og hollustuháttum eggjaframleiðslunnar fyrir mitt þetta ár,“ segir Halldóra Kristín Hauksdóttir nýkjörinn formaður deildar eggjabænda. Hún rekur ásamt fleirum eggjabúið Grænegg í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd.

Halldóra segir að um viðamiklar framkvæmdir sé að ræða fyrir eggjabændur og þær séu langt í frá sársaukalausar fyrir greinina. „Þetta eru kostnaðarsamar framkvæmdir og þess dæmi að minni framleiðendur hafi hætt  búskap vegna þess að þeir treystu sér ekki til að breyta sínum búum líkt og krafist er í reglugerðinni vegna þess mikla kostnaðar sem fylgir.“

Hún segir að á sama tíma og eggjabændur standa í ströngu við að uppfylla þessar kostnaðarsömu aðgerðir við bú sín hafi öll aðföng við framleiðsluna hækkað verulega. Það sé því mjög erfitt að halda eggjaverði óbreyttu líkt og tilmæli séu um frá ráðamönnum.

Eggjaframleiðsla í góðu jafnvægi

Eggjaframleiðslan er að sögn Halldóru í góðu jafnvægi og með aukningu ferðamanna stækki markaðurinn enn frekar. „Helsta ógnin sem við eggjabændur stöndum frammi fyrir er ef farið verður út í að lækka eða fella niður tolla. Fjármálaráðherra hefur aðeins verið að tæpa á því að fari inn í tollakerfi landbúnaðarins, til þess að lækka matvælaverð og bæta kjör almennings. Það er að mínu mati ekki góð leið til að jafna kjör og lækka verðbólgu að lækka tolla. Sú aðferð leiðir til þess að ríkið missir tollatekjur og viðskiptahalli getur vaxið í kjölfar meiri innflutnings,“ segir hún. „Hvoru tveggja, minni tekjur ríkisins vegna lækkunar tolla og meiri viðskiptahalli vegna aukins innflutnings leiðir til gengislækkunar á íslensku krónunni sem aftur leiðir til hækkunar á innflutningsverði. Staðreyndin er sú að íslensk matvæli hafa hækkað minna á sl. ári heldur en víðast hvar í okkar nágrannalöndum.“

Veruleg tækifæri eru að sögn Halldóru til að auka kornframleiðslu hér á landi og eru ýmsar rannsóknir í gangi er varða framleiðslu á próteini til dýrafóðurs. Fóður til eggjaframleiðslu hefur að mestu verið flutt inn til landsins, en hún nefnir að vaxandi innlend fóðurframleiðslu yrði til hagsbóta fyrir allt samfélagið.

Þá nefnir Halldóra að allur úrgangur sem komi frá alifuglum, svínum og jafnvel fiskeldi verði í enn meira mæli en nú nýttur sem áburður í einhverri mynd. „Þannig yrðum við í framtíðinni sjálfbærari en áður varðandi áburð.“

 

Nýjast