20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kostnaður sveitarfélaganna við nýtt hjúkrunarheimili verður 900 milljónir
Uppbygging nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík er nú í farvatninu. Sigurtillaga hönnunarsamkeppni um húsið er nú í lokahönnun en það var Arkís arkitektar sem unnu samkeppni um hönnunina. Stefnt er að útboði verksins á næsta ári og að framkvæmdir hefjist síðla árs 2021. Samkvæmt verkáætlun verður nýtt heimili tilbúið til notkunar á fyrri hluta árs 2024 en kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna var kynnt byggðarráði Norðurþings í síðustu viku.
„Þetta er að þurrka upp framkvæmdagetu sveitarfélagsins“
Hjálmar Bogi Hafliðason áheyrnarfulltrúi B-lista í byggðarráði Norðurþings segir í samtali við Vikublaðið að hann fagni þessum framkvæmdum enda hafi nauðsyn þeirra legið fyrir lengi. Hann setur þó spurningarmerki við þann gríðarlega kostnaðarauka sem birtist í nýrri kostnaðaráætlun sem kynnt var á síðasta fundi ráðsins. Þar kemur fram að í nóvember 2018 var kostnaðarskipting framkvæmdanna 85% á vegum ríkisins og 15% sveitarfélaganna. Þá var gert ráð fyrir því að hlutur sveitarfélaganna fjögurra sem að hjúkrunarheimilinu standa yrði 330 milljónir.
„Síðan kemur í ljós að það eru framkvæmdir á forræði sveitarfélaganna eins og tengibyggingin við heilbrigðisstofnunina og salur. Þá er kostnaðarskiptingin orðin 75% ríki og 25% sveitarfélögin,“ segir Hjálmar Bogi. Í dag er hlutur sveitarfélaganna orðinn 898 milljónir sem þýðir það að kostnaður Norðurþings er 687 milljónir; Skútustaðahreppur 75 milljónir, Tjörneshreppur 8 milljónir og Þingeyjarsveit 125 milljónir króna.
„Ég held að það sé ágætt að það komi fram að þegar þessar fyrstu tölur birtust, þá var ekki búið að fara í hönnunarsamkeppni. Eftir það ríkur kostnaðurinn upp og kostnaðarhlutfallið hækkar. Það má alveg velta því upp af hverju tengibyggingin sé alfarið á okkar kostnað. Væntanlega er það hagur þessa hjúkrunarheimilis að vera með tengingu við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík. Af hverju eigum við að borga hana að öllu leiti?,“ spyr Hjálmar Bogi.
Hann veltir því jafn framt fyrir sér hvort ekki mætti gera þetta ódýrara. „Þetta er að þurrka upp framkvæmdagetu sveitarfélagsins og rúmlega það því hún er ekki mikil eins og staðan er í dag,“ segir Hjálmar Bogi en leggur áherslu á að hann sé ekki á móti framkvæmdunum.