SVA kostnaður má ekki aukast

Mynd:MÞÞ
Mynd:MÞÞ

mth@vikubladid.is

Meirihluti bæjarstjórnar telur að greina þurfi betur kostnað við nýtt leiðakerfi strætó áður en til innleiðingar þess kemur Ein af forsendum fyrir endurskoðun á leiðakerfinu var að kostnaður myndi ekki aukast. Þetta kemur fram í tillögu sem Gunnar Líndal Sigurðsson L-lista lagði fram á fundi bæjarstjórnar Akureyrar.

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, VG hóf umræðu um almenningssamgöngur á Akureyri á fundinum og lagði fram bókun um að mikilvægt væri að hækka þjónustustig SVA og að úrfærsla á nýju leiðakerfi lægi fyrir ekki síðar en í nóvember næstkomandi svo gert væri ráð fyrir fjármögnun breytinganna í fjárhagsáætlun fyrir næsta ári. Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn greiddu atkvæði með tillögunni, en meirihlutinn var á móti og tillagan því felld.

Hvar á vinnuaðstaða bílstjóranna að vera?

Í tillögu Gunnars kemur fram að dregist hafi að koma á talningarkerfi sem talið er að geti gefið mikilvægar upplýsingar sem eiga að liggja til grundvallar breytingu á leiðakerfinu. „Æskilegt er að meta í samhengi kolefnisspor við rekstur strætisvagnakerfi í samanburði við aðra samgöngumáta svo sem einkabíl, reiðhjól, hlaupahjól og fótgangandi,“ segir í tillögunni.

Þá segir ennfremur að meirihlutinn telji að sem fyrst þurfi að liggja fyrir hvar eigi að koma upp vinnuaðstöðu fyrir bílstjóra strætisvagna og var umhverfis- og mannvirkjaráði falið að leggja fram tillögur þar um fyrir 1. desember næstkomandi.

Tillaga Gunnars var samþykkt með atkvæðum sex fulltrúa meirihlutans í bæjarstjórn gegn fjórum atkvæðum minnihlutans, en annar fulltrúi Framsóknarflokks sat hjá.

Nýjast