Konur gefa síður blóð en karlar -Átak til að fjölga konum í hópi blóðgjafa

Glaðbeittir hjúkrunarfræðingar hjá Blóðbankanum, Hanna, Þóra, Hrafnhildur og Birgitta kynna starfsem…
Glaðbeittir hjúkrunarfræðingar hjá Blóðbankanum, Hanna, Þóra, Hrafnhildur og Birgitta kynna starfsemi bankans á Glerártorgi og taka á móti nýskráningum. Þær vilja fjölga konum í hópi blóðgjafa og hvetja allar konur á aldrinum 18 til 65 ára að kanna hvort þær geti gerst blóðgjafar. Mynd MÞÞ

Verulega hallar á konur þegar kemur að blóðgjöfum, en einungis tvær konur eru á móti sex körlum í hópi blóðgjafa hér á landi. Bilið milli karla og kvenna í nágrannalöndum okkar er mun minna, þar eru konurnar fleiri.  Áform eru uppi um að breyta þessu og fá fleiri konur til að gefa blóð.

Blóðbankinn á Akureyri er starfandi á 2. hæð á Glerártorgi og var nú nýlega bætt við fjórða hjúkrunarfræðingnum sem þar starfar, en Birgitta Hafsteinsdóttir einn starfsmanna bankans segir að starfsemin hafi aukist undanfarið. „Við erum líka að auka svigrúmið til að fara í markaðs- og kynningarmál, en nú erum við um það bil að hefja kynningar á okkar starfsemi hjá fyrirtækjum og í skólum,“ segir hún.

Vantar fleiri konur

Stefnt er að því að fjölga konum í hópi blóðgjafa og eru starfsmenn Blóðbankans á Akureyri þessa dagana að kynna starfsemi bankans og hvað felst í því að vera blóðgjafi og fara í því skyni i í fyrirtæki og skóla. „Við viljum endilega fá fleiri konur til liðs við okkur,“ segir Birgitta, en frá árinu 2004 hafa um 1200 konur á Akureyri skráð sig sem blóðgjafa og er aðeins hluti þeirra virkur.

„Það er lífseig mýta að konur megi ekki gefa blóð en því fer fjarri, margar þeirra eru fullfærar um það,“ segir hún. Konur mega gefa blóð allt að þrisvar sinnum á ári en karlmenn fjórum sinnum.

Aukning á milli ára

Í starfsstöð Blóðbankans á Glerártorgi hefur safnast um 20% af allri heilblóðsöfnun á Íslandi sem er vel að verki staðið að sögn Birgittu. „Við erum sífellt að auka framlag okkar, en viljum þó alltaf gera betur og bæta talsvert við blóðgjafahópinn okkar,“ segir hún. Árið 2021 bættust 172 nýir blóðgjafar í hópinn og það sem af er þessu ári hefur bankinn fengið til liðs við sig 220 nýja blóðgjafa. „Það er gleðilegt að sjá þessa aukningu.“

Birgitta segir fyrirsjáanlegt að aukning verði í heilblóðsöfnun á þessu ári, í fyrra söfnuðust um 2037 heilblóðseiningar en það sem af er þessu ári hafa safnast 1626 heilblóðseiningar. „Við munum örugglega sjá aukningu hjá okkur á milli ára, það stefnir allt í það.“

Nýjast