Kisukot enn rekið á heimili við Löngumýri

Ragheiður með einn af skjólstæðingum Kattarkots  Myndir aðsendar
Ragheiður með einn af skjólstæðingum Kattarkots Myndir aðsendar

„Ég hef ekki heyrt í neinum síðan í byrjun desember,“ segir Ragnheiður Gunnarsdóttir sem rekið hefur Kisukot á heimili sínu í vel yfir áratug. Akureyrarbær hefur lýst yfir mögulegum stuðning við starfsemina um rekstur kattaathvarfs í bænum. Sex sveitarfélög í landinu styðja við slíka starfsemi, m.a. í formi húsnæðis, hita, rafmagns og fleira sem til þarf við rekstur af því tagi.

Ragnheiður segir að hún og Arna Einarsdóttir  hafi hitt fulltrúa Akureyrarbæjar á fundi 7. desember síðastliðinn og á þeim fundi hafi verið vel tekið í að finna heppilegt húsnæði undir Kisukot og eða aðstoða á einhvern hátt. Þær hafa báðar séð um að gefa villiköttum bæjarins mat og skipta á milli sín stöðum.   Fram kom á fundinum að það gæti tekið tíma að finna húsnæði. „Síðan eru liðnir þrír mánuðir og ég hef ekkert heyrt,“ segir hún.

Er núna með 9 aukaketti

Ragnheiður segir að í ekki þurfi stórt húsnæði undir starfsemina. Vissulega væri gott ef hægt yrði að bjóða upp á fleiri en eitt rými fyrir kettina þannig að hægt væri að aðskilja þá ef nauðsyn krefði, ef upp kæmu veikindi eða samkomulagið væri ekki nægilega gott á milli kattanna.  Nefnir hún að Villikettir í Hveragerði hafi yfir að ráða um 50 fermetrum.

„Ég er núna með 9 aukaketti hjá mér, sumir þeirra eru í mönnun sem getur tekið langan tíma. Einnig hafa nokkrar kisur dagað upp hjá mér af ýmsum ástæðum og eru þannig lagað orðnar mínar þó ekki hafi staðið til að eiga þær.

Í minnisblaði frá því á liðnu hausti sem Akureyrarbær tók saman kemur fram að beinn stuðningur bæjarins við 50 fermetra húsnæði gæti numið um 150 þúsund krónur á mánuði. Helmingur leyfisgjalds vegna kattahalds er ríflega 15 þúsund krónur á mánuði sem hægt væri að nýta til rekstursins.

 

Nýjast