Kennsla á haustönn í VMA hefst i dag

Fyrsti kennsludagur VMA á haustönn er í dag.   Mynd gn
Fyrsti kennsludagur VMA á haustönn er í dag. Mynd gn

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá í VMA í dag á nýju skólaári. Á haustönn hefja 930 nemendur nám í dagskóla, þar af 200 nýnemar.

Síðastliðið haust hófst kvöldskóli í húsasmíði og sá nemendahópur mun halda áfram námi sínu í vetur.

Á haustönn hefst nám í framreiðslu (þjónn), matreiðslu (3. bekkur að loknu grunnnámi og 2. bekk) og þá er stefnt að námi í kjötiðn á vorönn.

Miðað er við að námið í matreiðslu og framreiðslu hefjist um miðja haustönn og því ljúki á miðri vorönn. Slíkt fyrirkomulag hefur ekki verið reynt áður en í góðu samráði við veitingageirann hefur verið ákveðið að hafa þennan háttinn á, í ljósi þess að fyrstu og síðustu mánuðir ársins eru jafnan rólegustu mánuðurnir á veitingahúsunum (að desember undanskildum).

Fyrir nokkrum árum fékk VMA heimild til þess að fullmennta bæði matreiðslu- og framreiðslufólk og hefur sú heimild verið nýtt til þess að fullmennta matreiðslumenn en þetta er í fyrsta skipti sem nægilega margir hafa skráð sig til þess að hefja nám í framreiðslu. Ari Hallgrímsson, brautarstjóri matvælabrautar, segir að tíu hafi skráð sig í nám í 3. bekk í matreiðslu og 13 í 2. bekk í framreiðslu.

Þá er stefnt á að á vorönn byrji nýr námshópur í pípulögnum, sem er hluti af námi í byggingadeild, en síðasti námshópur í þeirri iðngrein lauk sínu námi sl. vor.

Á liðnu skólaári hófst samstarf VMA og Borgarholtsskóla í Reykjavík um nám í bifvélavirkjun og það samstarf heldur áfram í vetur.

Frá þessu er greint á heimasíðu skólans.

Nýjast