6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Karíus og Baktus í tönnunum hans Jens í Freyvangsleikhúsinu
Leikritið Karíus og Baktus þarf vart að kynna fyrir Íslendingum enda hefur þessi saga um ,,bræðurna” sem búa í holunum í tönnunum fylgt börnum þjóðarinnar frá 1965.
Þeir Karíus og Baktus bárust til Íslands 1965 þegar út kom hljómplata með leikritinu í íslenskri þýðingu Huldu Valtýsdóttur, sú útgáfa var gerð að sjónvarpsleikriti hjá RUV seint á sjöunda áratugnum eða snemma á þeim áttunda.
Núna eru þeir bræður að fara á svið í Freyvangsleikhúsinu í fyrsta skipti.
Félagarnir Ormur Guðjónsson og Eyþór Daði Eyþórsson leika þá bræður Karíus og Baktus og fara þeir á kostum sem tanntröllin sem þykja fátt skemmtilegra en að borða sætindi og höggva í tennur. Sögumaðurinn kemur líka fyrir á sviði og er hann leikinn af hinum þaulreynda Jóni Friðrik Benónýssyni(Bróa). Svo er tannburstinn, sem er leikin af Ingimar Badda Eydal, fer hann hamförum um sviðið til að hreinsa tennurnar og vippar sèr svo í tannlæknaborslíki og lagar tennurnar, rètt áður en hann kemur aftur inná sem tannbursti og tekur síðustu hreinsun í tönnunum hans Jens. Það er mikið sungið í leikritinu og því er hljómsveitin sem þeir, Reynir Schiöth píanóleikari og Gunnar Möller bassaleikari skipa.Verkið hefur þróast í áranna rás en boðskapurinn er alltaf sá sami, hugsaðu vel um tennurnar þínar!
Sjón er sögu ríkari
Sýningar verða á aðventunni og er miðasala á tix.is