Kanna fýsileika þess að flytja stjórnsýsluna
Byggðarráð Norðurþings samþykkti í síðustu viku tillögu frá Hjálmari Boga Hafliðasyni forseta sveitarstjóra um að hefja viðræður við fulltrúa Gb 5 um nýtingu sveitarfélagsins á húsnæðinu að Garðarsbraut 5 sem í daglegu tali er kallað Kaupfélagshúsið.
Hjálmar segir í samtali við blaðið að um langtímaverkefni sé að ræða. „Húsnæðið sem við erum í í dag [stjórnsýsluhúsið á Húsavík] er komið til ára sinna og kannski kominn tími á að endurskoða hvað við þurfum marga fermetra og hvernig skrifstofurými við viljum hafa,“ segir Hjálmar og leggur áherslu á að þetta sé aðeins á samræðustigi enn þá.
Vill skoða samlegðaráhrif
„Ég sé samlegðaráhrif í því að skoða þennan möguleika í samráði við Gb5 hvort við getum fengið inni hjá þeim með skrifstofur. Með sameiginlegum rýmum með annarskonar skrifstofum sem eru þar,“ útskýrir Hjálmar og bætir við að tillagan snúist fyrst og fremst um hægkvæmni, að kanna hvort hægt sé að spara með þessari leið.
Þá veltir Hjálmar því fyrir sér hvort fasteignin sem hýsir stjórnsýsluna í dag gæti nýst einhverjum öðrum betur. „Það eru kostir að stjórnsýsluhúsið er með tvö fasteignanúmer, þess vegna söluvæn fasteign myndi ég halda.“
Óhentugt húsnæði
„Nú er ég búinn að vera hér í þessu húsi síðan 2010, mín upplifun sem kjörinn fulltrúi sem kemur hér inn á fundi og tala við fólk, þá er þetta ekki endilega praktískasta húsnæðið. Fundarsalurinn finnst mér t.d. ekki skemmtilegur,“ segir Hjálmar.
Endurbætur standa nú yfir í húsnæðinu að Garðarsbraut 5 og er frekari uppbygging í farvatninu. „Þá sé fyrir mér samlegðaráhrif, að fulltrúar Gb5 hanni þá uppbyggingu með þarfir sveitarfélagsins í huga,“ segir Hjálmar.
Hugar að aðgengismálum
Varðandi aðgengi fyrir hreyfihamlaða segir Hjálmar að nú þegar sé fyrirhugað að koma fyrir lyftu í húsnæðinu að Garðarbraut en aðgengismál í stjórnsýsluhúsinu séu í dag ekki viðundandi.
„Við erum með tvær hæðir hér í stjórnsýsluhúsinu og það er ekki aðgengi fyrir fatlaða að efri hæðinni með lyftu, þar er skrifstofa sveitarstjóra og fjármálastjóra,“ segir Hjálmar og bætir við að lokum að það sé hans upplifun að núverandi húsnæði sé ekki hentugt