KA - Þór: Grannaslagurinn er að hefjast

KA tekur á móti grönnum sínum í Þór eftir skamma stund. Mynd: Sævar Geir.
KA tekur á móti grönnum sínum í Þór eftir skamma stund. Mynd: Sævar Geir.

Í dag, laugardag mætast á Akureyrarvelli stórliðin KA og Þór í grannaslag í Inkassodeildinni. Um sannkallaðann toppbaráttuslag er að ræða og má búast við að hart verði barist. Aðeins fjögur stig skilja liðin að þegar 10 umferðir eru spilaðar.

Fyrir mót var KA spáð sigri í deildinni og enn sem komið er hafa þeir staðist pressuna og tróna einir á toppi deildarinnar með fjögurra stiga forystu á næstu lið sem eru Leiknir R. og Þór. Grindavík er fylgir fast á hæla þeirra í 4. sæti með 18 stig. KA sótti sterkt stig til Grindavíkur á þriðjudag, en eru líklega svekktir að hafa ekki tekið öll þrjú stigin eftir að hafa verið 2-0 yfir í hálfleik. Grindvíkingar komu sterkir inn í síðari hálfleik og náðu að jafna 2-2.

„Það er náttúrlega svekkjandi þegar maður er kominn í 2-0 að missa það niður, en þetta er erfiður útivöllur og við tökum stigið,“ sagði Davíð Rúnar Bjarnason fyrirliði KA í samtali við Vikudag.

KA-menn eru á mikilli siglingu og hafa fengið 13 stig út úr síðustu fimm leikjum, þeir hafa raunar ekki tapað í deildinni síðan þeir fengu skell á Ásvöllum í 4-1 ósigri gegn Haukum í annari umferð. Það er jafnframt eini tapleikur liðsins sem af er tímabilsins. Með sigri á laugardag geta KA tryggt stöðu sína á toppi deildarinnar enn frekar.

Vikudagur spurði fyrirliðann hvort menn væru ekki farnir að finna fyrir pressu: „Við setjum pressu á okkur sjálfir og viljum vera í toppbaráttu, við finnum ekki fyrir neinni pressu umfram það. Við ætlum okkur að fara upp, það er okkar markmið, við höfum alltaf sagt það.“ Aðspurður hvernig leikurinn á laugardag færi svaraði hann: „Þetta er náttúrlega leikur sem maður leitar uppi þegar leikjaplanið kemur og bíður spenntur eftir allt sumarið. Hann er extra spennandi í ár þar sem bæði lið eru í toppbaráttu. Þetta verður allavega sigur fyrir brekkuna.“

Þórsarar þurfa nauðsynlega á sigri að halda ef þeir ætla ekki að dragast aftur úr í toppbaráttunni. Liðið tapaði á þriðjudag fyrir Keflavík á heimavelli 1-2. „Stemmningin er bara ágæt í liðinu, það er svekkelsi að tapa en enginn heimsendir,“ segir Sveinn Elías Jónsson fyrirliði Þórs. Þórsarar virðast vera komnir í einhverja lægð eftir annars gott gengi en um síðustu helgi var liðið kjöldregið af Grindvíkingum 5-0 í Grindavík. Í síðustu fimm leikjum hefur Þór náð 9 stigum.

Hefur þetta áhrif á sjálfstraustið? „Það gerir það alltaf þegar maður tapar. Ég hugsa að lið sem vinnur leiki hafi meira sjáfstraust en lið sem tapar það helst alveg í hendur en hinsvegar er þetta svo jöfn deild að yfirleitt eru þessir leikir jafnir hvort sem það eru lið í 12. sæti eða toppbaráttu sem maður er að spila gegn, þesssi Grindavíkurleikur held ég að hafi verið undantekning,“ segir

Sveinn Elías sem er orðinn spenntur fyrir grannaslagnum um helgina. „Það er snilld að fá þennan leik núna, tímasetningin gæti ekki verið betri,“ sagði hann og bætti við: „Ég hef trú á að við vinnum þennan leik, þó það sé alltaf ómögulegt spá fyrir um svona leiki. Þetta eru vanalega x-faktor leikir. Staða liðanna í deildinni skiptir ekki máli eða hvort liðið hefur verið að sigurbraut eða verið að tapa, það hefur það ekki áhrif inn í þennan leik. Það er svona önnur stemmning og allir tilbúnir að gefa allt fyrir málstaðinn.“

Leikurinn fer fram á Akureyrarvelli í dag laugardag klukkan fjögur. -epe

-Vikudagur, 14. júní.

Nýjast