Jónsvika er Skjálfandi í ár
Um þessar mundir fer fram Jónsvika á Húsavík. Nafni hátíðarinnar hefur reyndar verið breytt í Skjálfandi, sem er afar viðeigandi nafn fyrir ólgandi og fjölbreytta listahátíð allra listgreina á Húsavík. Þetta er í 5. sinn sem hátíðin er haldin í bænum.
Harpa Fönn Sigurjónsdóttir í Kaldbak er stofnandi hátíðarinnar og hefur hún staðið vaktina frá upphafi. Hugmyndin með hátíðinni er sú að í Kaldbak dvelji listamenn yfir heila viku í vinnustofum, og skapi þar og vinni að verkefnum. Listamennirnir verða þá óhjákvæmilega fyrir innblæstri frá umhverfinu í kringum Kaldbak, samfélaginu og þeim gildum sem eru ríkjandi í bæjarlífinu á Húsavík.
„Í þetta sinn hefur Listhópurinn Vinnslan sótt vinnustofurnar, sem ég er einmitt meðlimur í. Við höfum fengið til liðs við okkur tvær listakonur, aðra frá Noregi og hina frá Danmörku, til að vinna þar og þróa verk sem heitir Dýrkun,“ segir Harpa Fönn og bætir við: „Hluti verksins var einmitt fluttur á Jónsviku í fyrra í Samkomuhúsinu, og verður spennandi fyrir okkur að sjá hvernig þróun verksins verður í ár og hvað við komum til með að setja upp í samkomuhúsinu í þetta skiptið. Í fyrra var þetta rosa flott sjónarspil!“ segir hún.
Í Samkomuhúsinu verður efnt til Skjálfanda listahátíðar laugardagskvöldið, 28. maí, frá kl. 20.00 - 24.00., þar sýnir Vinnslan einmitt nýtt brot úr Dýrkun, auk þess sem fjölmargir heimamenn og aðkomufólk mun vísa fram hæfileika sína, í formi tónlistar, sviðslistar, myndlistar, hönnunar og annarra uppákoma.
"Hönnuðir og listamennirnir í Kaðlín verða að sjálfsögðu á staðnum, og Siffi [Sigfús Sigfússon Þráinssonar] setur upp ljósmyndasýningu, auk þess verður Alva Kristín Kristínardóttir með myndlistarsýningu, segir Harpa Fönn um dagskrána og bætir við: „Andrea Pétursdóttir, Alexandra Dögg Einarsdóttir og Harpa Ólafsdóttir taka lagið, og Hóffí Ben mun flytja þjóðlagatónlist, en ég er einna spenntust fyrir því, enda Hóffí gamli kórstjórinn minn og algert legend í mínum augum,“ segir Harpa Fönn.
En fleiri munu troða upp, hljómsveitin Herðubreið, sem er skipuð tveimur húsvískum stúlkum - þeim Brynju Elínu Birkisdóttur og Fanneyju Kristjáns Snjólaugardóttir - mun stíga á svið. Þórir Georg mun flytja frumsamið efni, en hann hefur gefið út 15 hljómplötur og því af nógu að taka.
Harpa Fönn mun sjálf flytja eigið efni, en hún hefur getið sér gott orð fyrir tónlistarsköpun sína með kvenskörungahljómsveitinni Grúska Babúska. Harpa opnar hátíðina stundvíslega kl. 20.10.
Biggi Hilmars, tónlistarmaður og Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikari, munu einnig flytja verk á sviðinu.
„Þetta verður sannkölluð listahátíð og það verður ókeypis inn." segir Harpa og bætir við að endingu:
„Áhugasamir geta kynnt sér dagskrá á fésbókarsíðu hátíðarinnar, undir Skjálfandi listahátíð, en þess má geta að gestir geta komið og farið hvenær sem er yfir kvöldið, en mæla skipuleggjendur með því að mæta þó snemma, gera sér gott kvöld, kíkja jafnvel út í góða veðrið og fá sér hressingu í sólinni, koma svo jafnvel aftur, og enda svo kvöldið á sveitaballinu í Sólvangi“. /epe
Facebooksíðu hátíðarinnar má skoða hér