27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Jólakippur kominn í Jólakertaframleiðslu PBI
Starfsfólk Plastiðjunnar Bjargs-Iðjulundar (PBI) er nú önnum kafið við að dýfa veislukertum og steypa sín margrómuðu útikerti sem fást í verslunum Bónus á Akureyri en er einnig hægt að kaupa í verslun PBI að Furuvöllum 1. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.
Eins og víða annars staðar þá tekur starfsemin hjá PBI nokkurn kipp í aðdraganda jólanna. Þá er nóg að gera í kertaframleiðslunni en kerti sem framleidd eru hjá PBI eru gerð úr 100% brennsluvaxi og svo lituð. Það gerir það að verkum að brennslutími kertanna er mjög langur og kertin haldast falleg þar sem lítið sem ekkert rennur til á þeim.
Plastiðjan Bjarg - Iðjulundur er vinnustaður á vegum Akureyrarbæjar þar sem áherslan er lögð á starfsendurhæfingu, starfsþjálfun og að skapa vinnutækifæri fyrir fólk með skerta starfsgetu af ýmsum ástæðum. Starfsfólk PBI framleiðir auk kertanna m.a. raflagnaefni, búfjármerki, mjólkursíur, diskaþurrkur, klúta og ýmis konar skilti.