20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Jól í öðru landi
Blaðamaður Vikudags settist niður með Ólöfu Maríu Birnu-Brynjarsdóttur til að forvitnast um hvernig það sé að halda jól í öðru landi og eftir þeim hefðum sem þar ríkja.
Fjölskylda Ólafar flutti út til Kanada í eitt ár í fyrra því Ólög fór í nám við háskólann í Guelph. Við tók mikil breyting hjá fjölskyldunni hvað varðar jólahátíðirnar. Vinkona Ólafar, Arnbjörg Jónsdóttir, bjó úti og var í sama skóla og hélt upp á jólin með fjölskyldu Ólafar. Þetta er eitthvað sem þau höfðu aldrei gert áður, þ.e. að hafa gest yfir jólin inni á heimilinu, hvað þá að halda upp á jólin í öðru landi.
Hvernig var jólaundirbúningurinn í Kanada?
„Í fyrstu var smá kvíði í krökkunum í byrjun desember. Þeir kviðu því hvernig jólin myndu verða en þeir fengu að vera með í skipulaginu hvernig jólunum yrði háttað. Þegar upp er staðið fann fjölskyldan ekki fyrir neinum söknuði eftir íslenskum jólum, heldur var þetta bara skemmtileg lífsreynsla sem fer í reynslubankann,“ segir Ólöf.
Tveggja metra hátt jólatré
Kanadamenn skreyta ekki mikið með útiseríum, að sögn Ólafar, heldur er mikið meira skreytt innandyra. Fjölskylda Ólafar eru jólabörn í húð og hár og því var keypt mikið af skrauti og seríum. Jólatréð var einir 2 metrar á hæð og þakið skrauti frá toppi til „táar“. Jólaseríurnar voru settar upp innandyra og var húsið því vel lýst að innan, samkvæmt Ólöfu.
Á Þorláksmessu fór fjölskyldan á stúfana eftir saltfiski. Engum datt í hug að leita eftir skötu þar sem enginn á bænum borðar hana. Þau enduðu með að kaupa norskan sólþurrkaðan saltfisk. Ólöf segist hafa gert gratíneraðan saltfiskrétt og boðið annarri íslenskri fjölskyldu sem þau þekktu og bjó í næstu götu við þau í mat. „Krakkarnir eru ekkert hrifnir af saltfiski og þeir fengu bara hamborgara í staðinn. Það var rosalega gaman að halda aðeins í íslenskar hefðir ásamt því að taka inn kanadískar líka með,“ segir Ólöf.
Íslensku jólasveinarnir komust ekki til Kanada!
Hvernig var jólasveinahefðin í Kanada?
„Íslensku jólasveinarnir komust ekki til Kanada,“ var sagt við krakkana því að sá ameríski myndi koma til okkar í staðinn,“ segir Ólöf. „Ákveðið var að hengja íslenska ullarsokka fyrir garðhurðina í húsinu sem við bjuggum því ekki var neinn arinn. Ameríski jólasveinninn kemur á aðfangadagskvöld og setur í sokkana, sem voru sjö talsins, ýmislegt gagnlegt eins og vettlinga, sokka, nammi, mandarínur, nærföt og náttföt. Á jóladagsmorgun athuga svo allir sinn sokk.“
Krökkunum þeirra fannst þetta rosalega skemmtilegt og hafa þau ákveðið að gera þetta aftur þetta árið. „Ameríski jólasveinninn er meira til í að flytja sig milli heimsálfa en sá íslenski,“ segir Ólöf brosandi.
Hvað var í matinn á aðfangadag?
„Að sjálfsögðu var ekta kalkúnn eldaður með kanadísku meðlæti eins og „yams“ sem er sæt kartöflumús með sykurpúðum á. Í Kanada fæst ekki malt og appelsín sem virðist vera rammíslensk jólahefð hjá mörgum Íslendingum en fjölskyldan ákvað að kaupa gosdrykk í dósum sem heitir „Canada dry“, sem líkist engiferöli, til að hafa með matnum. Klassískt var svo að hafa ís í eftirrétt eins og svo margir gera.“
Krakkarnir fengu að ráða hvað varðar jólagjafirnar og voru þær því opnaðar eftir matinn á aðfangadagskvöld eins og hefur tíðkast hér á landi.
„Við fundum ekkert fyrir því að það vantaði eitthvað,“ segir Ólöf. Þó að það vantaði margt úr íslensku hefðinni þá nýttu þau það til að kynnast menningunni betur. „Í Kanada virðast jólin ekki vera eins heilög hátíð og hjá okkur Íslendingum.“
Sem dæmi um það hversu lítið heilög jólahátíðin er fyrir Kanadamenn þá buðu nágrannarnir þeim í mat á jóladag, þrátt fyrir að þekkja þau lítið sem ekkert. Þau þáðu ekki boðið þar sem þau voru með sinn eigin jólagest.
Gott að hrista upp í hefðunum
Ólöf minnist á áramótin, hversu mikill munur er á þeim úti og svo hér á Íslandi. Ákveðið var strax að ekki yrði eldaður kalkúnn. „Við vorum búin að borða kalkún alla jólahátíðina og ætluðum ekki að elda fleiri,“ segir Ólöf.
Áramótin voru frekar „kósý“ og þægileg hjá fjölskyldunni, boðið var upp á ávaxtabakka og sjávarréttarsúpu. Í Kanada er ekki skotið upp flugeldum eins á Íslandi og auðvitað ekkert áramótaskaup heldur en Ólöf segir að þau hafi horft á það á nýársdag í gegnum netið.
Hvað fannst þér standa upp úr þessi jól?
„Við tókum eftir því um hvað jólin snúast, að vera öll saman sem fjölskylda,“ segir Ólöf. Hún segir að ekkert jólastress hafi verið eftir að búið var að skipuleggja hvernig jól þau ætluðu að halda en það má segja að þau hafi blandað tveimur jólahefðum saman.
Eftir þessa reynslu finnst Ólöfu að fjölskyldan hafi orðið nánari og hún mælir með að fólk hristi öðru hverju upp í hefðunum hjá sér og prófi eitthvað nýtt.
-Sesselía Úlfarsdóttir
Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem var í umsjón nemenda í prentmiðlun við Háskólann á Akureyri.