27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Ítarlegasta rannsókn sem gerð hefur verið á svefn-gæðum og algengi kæfisvefns meðal ungra barna
Á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) stendur nú yfir ítarlegasta rannsókn sem gerð hefur verið á Vesturlöndum á algengi svefnvandamála barna á aldrinum 4-8 ára. Þegar hafa 126 börn verið skráð í rannsóknina en ætlunin er að ná til mun stærri hóps á næstu mánuðum. Markmiðið er að kortleggja algengi svefntruflana og í framhaldi skoða betur undirliggjandi ástæður og gagnsemi meðferðar. Ógreindur kæfisvefn getur haft mjög neikvæð áhrif á þroska og hegðun barns sem getur haft áhrif á getu til náms og færni þess í samfélaginu. Einnig getur ómeðhöndlaður kæfisvefn aukið líkur á offitu, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum síðar á lífsleiðinni. Tengsl kæfisvefns og ofvirkni og athyglisbrests eru líka sterk.
„Við vitum að svefn er mikilvægur og ef hann er einhvern tímann mikilvægari en ella er það þegar börnin eru ung. Á fyrstu árum barnsins eru svefnvenjur þess í örri þróun og einnig þroski heila- og miðtaugakerfis. Börnin eru að læra að aðlaga sig umhverfinu og hratt að læra nýja hluti, og þá er svefninn sérstaklega mikilvægur til að festa nýlærða hluti í minni barnsins, bæði djúpsvefn og draumsvefn. Kæfisvefn og skert svefngæði hafa áhrif á svefn barnsins með því að brjóta upp hið eðlilega svefnmunstur, styttir djúpsvefn og draumsvefn og getur einnig minnkað súrefnismettun í líkamanum,“ segir Sólveig Dóra Magnúsdóttir, læknir og eigandi SleepImage, en hún hefur nýlokið meistaraprófi í svefneðlisfræði frá Oxford University.
Hversu algengur er kæfisvefn hjá ungum börnum?
Sólveig Dóra segir að algengasta orsök kæfisvefns í þessum aldurshópi séu stórir háls- og nefkirtlar sem þrengi öndunarveginn þannig að barnið geti þurft að erfiða við að anda. Þegar um mild einkenni sé að ræða hrjóti barnið gjarnan en í alvarlegri tilfellum geti barnið hætt að anda í stutta stund og þá sé talað um að barnið hafi kæfisvefn.
Hún segir algengast að skima fyrir kæfisvefni með því að nota spurningalista, en samkvæmt nýlegri samantektarrannsókn greini sá spurningalisti sem best kemur út einungis um 75% þeirra barna sem hafa sjúkdóminn. „Sú spurning vaknar hvort það hlutfall sé ásættanlegt þegar litið er til þeirra afleiðinga sem ómeðhöndlaður kæfisvefn getur haft fyrir heilsu og þroska barna til bæði styttri og lengri tíma. Þess vegna viljum við gjarnan mæla sem flest börn, ekki bara börn sem hafa þessi einkenni því oft getur verið erfitt fyrir foreldra að átta sig á einkennum kæfisvefns,“ segir Sólveig Dóra.
Hún segir fyrsta skrefið að skoða hversu algengur kæfisvefn er í hópi ungra barna með því að mæla svefninn hjá þessum börnum en ekki styðjast eingöngu við spurningalista og fá þannig betri yfirsýn yfir hvert raunverulegt algengi er á kæfisvefni á Íslandi í dag. „Kæfisvefn er sá sjúkdómur sem mest hefur verið rannsakaður í börnum en fyrst og fremst í börnum á skólaaldri og lítið hjá yngri aldurshópum. Með því að greina og meðhöndla sjúkdóminn snemma eru miklu meiri möguleikar á að bæta vitsmunaþroska barnsins og stuðla að bættri heilsu og lífsgæðum þess.“
Mælum öll börn sem vilja koma í mælingu
Ingibjörg Ösp Ingólfsdóttir, Erla Guðbjörg Hallgrímsdóttir og Laufey Hrólfsdóttir (standandi).
„Í öllum svefnrannsóknum barna til þessa hefur verið notast við spurningalista en ekki mælitæki. Þar hafa líka eingöngu verið mæld börn sem grunur leikur á að þjáist af kæfisvefni. Þar með ertu kominn með valinn hóp. Okkar rannsókn er einstök á heimsvísu að því leyti að við erum með heilbrigt þversnið eða þýði barna, við mælum öll börn sem vilja koma í mælingu. Engin sambærileg þversniðsrannsókn hefur verið gerð í heiminum, hvað þá þar sem stuðst er við nákvæm mælitæki,“ segir Gróa Björk Jóhannesdóttir, forstöðulæknir barnalækninga á SAk.
Hún segir að aldrei áður hafi verið mældar svo margar nætur í röð í nokkurri rannsókn. „Við mælum 5 nætur, sem er mjög þýðingarmikið, því aðrar rannsóknir hafa sýnt að það er breytileiki í kæfisvefni og alvarleikinn ekki endilega sá sami allar nætur. Rannsóknin mun væntanlega leiða í ljós hvort breytileiki sé í kæfisvefni milli nátta hjá börnum líkt og hjá fullorðnum.“
Gróa Björk segir að hin fullkomna rannsókn væri ef öll börn á Akureyri á aldrinum 4-8 ára tækju þátt í rannsókninni. „Við erum með 126 börn nú þegar en viljum gjarnan að þau verði í kringum 500. Við getum mælt 50 börn á viku og náum hæglega markmiði okkar um 500 börn fyrir áramót ef við getum sannfært nógu marga foreldra um að taka þátt í rannsókninni. Við viljum mæla öll börn, líka þau sem glíma ekki við svefnörðugleika.“
Byltingarkennt mælitæki
Þátttaka barnsins felst í að sofa með einfalt svefnmælitæki fimm nætur í röð. Forráðamenn barnsins svara spurningalista varðandi heilsufar og svefn barnsins og hlaða tækið að morgni. Ávinningur af þátttöku í rannsókninni er að forráðamenn fá niðurstöður svefnmælinga síns barns og ef líkur eru á að það hafi kæfisvefn, býðst þeim ráðgjöf.
Svefnmælingatækið er frá SleepImage og er afrakstur 15 ára þróunarstarfs fyrirtækisins og Harward háskóla. Það er sett á fingur barnsins líkt og hringur, er þægilegt og algerlega hættulaust í notkun en gefur miklar upplýsingar. Búið er að birta yfir 100 vísindagreinar um þá tækni sem tækið byggir á en það kom á markað árið 2020.
Sterk tengsl kæfisvefns og athyglisbrests og ofvirkni
Sólveig Dóra segir yfirstandandi rannsókn bara fyrsta skrefið í því sem hópurinn myndi vilji gera, „eiginlega bara inngangurinn að bókinni sem okkur langar að skrifa. Fyrsti kaflinn er að greina hversu stórt vandamálið er, svo eru það tengslin við þroska, offitu, sykursýki og hjartasjúkdóma síðar á lífsleiðinni.“
Einnig væri áhugavert að skoða hvert samband milli ógreinds kæfisvefns og ofvirkni og athyglisbrests er. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að um 30-50% barna sem eru greind ofvirk og með athyglisbrest hafa kæfisvefni og 80% þeirra lagast af athyglisbresti og ofvirkni ef kæfisvefninn er læknaður. „Spurningin er því getum við nýtt þess einföldu og ódýru leið til að svefnmæla öll þau börn sem hafa ofvirkni og athyglisbrest og með því að greina og meðhöndla þann hluta sem hefur kæfisvefn mætti þannig minnka langtíma lyfjanotkun við þessum sjúkdómi? Hér er því til mjög mikils að vinna.“
Fyrstu niðurstöður á vordögum
Þær Sólveig Dóra og Gróa Björk segjast stefna á að birta fyrstu niðurstöður á vormánuðum. Fyrsta niðurstaðan verði um algengi kæfisvefns meðal barna en að lengri tíma geti tekið að vinna aðrar niðurstöður, svo sem um breytileika svefns milli nátta og hvernig þetta allt getur hugsanlega tengst öðrum þáttum eins og meltingar- og öndunarfærasjúkdómum, athyglisbresti og ofvirkni.
Umsjónarmenn verkefnisins eru þau Hannes Petersen, háls-, nef- og eyrnalæknir, Gróa Björk Jóhannesdóttir, forstöðulæknir barnalækninga og Laufey Hrólfsdóttir, forstöðumaður deildar mennta- og vísinda, öll á SAk. Samstarfsaðili er Sólveig Dóra Magnúsdóttir, eigandi SleepImage. Erla Guðbjörg Hallgrímsdóttir læknanemi og Ingibjörg Ösp Ingólfsdóttir, hjúkrunarfræðingur og meistaranemi í lýðheilsuvísindum, hafa unnið í teyminu að rannsókninni frá því hún hófst í júlí sl.
Skráning í rannsóknina og frekari upplýsingar fást með því að senda línu á svefn@sak.is