11.desember - 18.desember - Tbl 50
Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi S- lista á Akureyri Meirihlutinn skilar A-hluta sveitasjóðs með tapi 4 ár í röð
„Það er mikið áhyggjuefni að ekki takist betur til í rekstrinum en svo að honum sé skilað með tapi ár eftir ár,“ segir í bókun frá Hildi Jönu Gísladóttur bæjarfulltrúi S-lista vegna samþykktar fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar í liðinni viku.
„Í þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram er gert ráð fyrir áframhaldandi taprekstri A-hluta sveitarsjóðs, 211 milljónir króna á árinu 2025 og 10 miilljónir króna á árinu 2026. Sá meirihluti sem hér starfar hefur ef allt fer sem horfir skilað rekstri A-hluta sveitasjóðs með tapi 4 ár í röð frá 2023-2026 sem nemur nærri 900.000.000 króna,“ segir í bókun Hildu Jönu.
Hún segir þær fyrirætlanir meirihlutans um að auka skuldsetningu bæjarsjóðs verulega vegna fjárfestinga í verkefnum sem að öllu óbreyttu munu auka rekstrarkostnað sveitarfélagsins ekki síður vera áhyggjuefni.
Mætti lækka álögur á íbúa og atvinnulíf
Mun skynsamlegra væri að fjárfesta í mannvirkjum yfir lengri tíma og einbeita sér að verkefnum sem raunverulega geta dregið úr rekstrarkostnaði. Þannig mætti ná jafnvægi í rekstri og lækka álögur á íbúa og atvinnulíf með því t.d. að lækka fasteignaskatta og gjaldskrár, þá ekki síst gjaldskrár viðkvæmra hópa, eldri borgara og barnafjölskyldna. Bendir hún á að einnig sé margt mjög jákvætt í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og verði sérstaklega áhugavert að fylgjast með árangri af innleiðingu hreyfikorts.
Loks nefnir hún áhyggjur yfir því að þrátt fyrir gríðarlegar fjárfestingar eigi að fresta óumflýjanlegu viðhaldi á þaki Síðuskóla, óumflýjanlegu viðhaldi á þaki Ráðhússins sem ekki stenst brunaúttekt og að ekki sé gert ráð fyrir löngu tímabærum framkvæmdum við Lundarsel-Pálmholt.
Slagkraftur í samfélaginu
„Að okkar mati horfir rekstur sveitarfélagins til betri vegar. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall fari heldur niður á við næstu ár og má því segja að fjárhagur sveitarfélagsins sé á góðri leið og fjárhagur sterkur. Það býr mikill slagkraftur í samfélaginu okkar sem verður nýttur til að byggja upp sterka innviði í samfélaginu og efla þjónustuna við íbúa,“ segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar.