Geðverndarfélag Akureyrar fjármagnar þjálfun á heilaörvunartæki
Í tilefni 50 ára afmælis Geðverndarfélags Akureyrar i dag, 15. desember, var nýlega haldinn sérstakur afmælisfundur þar sem fulltrúum dag- og göngudeildar geðdeildar SAk var færður styrkur vegna þjálfunar á sérstakt heilaörvunartæki.
Heilaörvunartækið verður notað við meðferð á meðferðarþráu þunglyndi, þ.e. þunglyndi sem ekki hefur tekist að draga úr með hefðbundinni lyfja- og sálfræðimeðferð.
Meðferðin kallast TMS, transcranial magnetic stimulation, sem hefur verið þýtt sem segulörvun á heila. Meðferðin örvar taugafrumur í heila til að senda boð og þvingar tauganetin til þess að breyta tengingum sínum og mynda nýjar.
Fullur bati í 30% tilvika
Rannsóknir sýna fram á fullan bata í um það bil 30% tilvika og umtalsverðan bata hjá mörgum fleiri. Meðferðin hefur verið í boði á höfuðborgarsvæðinu í nokkur ár og gefið góða raun. Það er því ánægjulegt að nú styttist í að þessi meðferð verði einnig í boði á Norðurlandi.
Tækið sjálft kemur til með að kosta rúmar 10 milljónir og hefur Brynja Vignisdóttir hjúkrunarfræðingur dag- og göngudeildar geðdeildar borið hitann og þungann að afla verkefninu brautargengis og fjármagns í samstarfi við stjórnendur SAk. Styrkur GVA sem er 500.000 krónur, er ætlaður til standa straum af kostnaði við þjálfun starfsfólks á umrætt tæki.
Áhugasamir lesendur sem myndu vilja styrkja þetta verkefni geta haft samband við Geðverndarfélag Akureyrar í netfangið gedvernd@outlook.com.
Starfsfólk á dag- og göngudeild geðdeildar SAk, frá vinstri: Ragnheiður Reykjalín Magnúsdóttir deildarstjóri, Árný Berglind Hersteinsdóttir iðjuþjálfi, Brynja Vignisdóttir hjúkrunarfræðingur og Árni Jóhannesson geðlæknir.