Mýsköpun klárar fjármögnun
Örþörungafyrirtækið Mýsköpun hefur lokið vel heppnaðri fjármögnun sem gerir fyrirtækinu kleift að vaxa áfram. Núverandi hluthafar tóku þátt í fjármögnuninni sem var uppá ríflega 50 milljónir króna og var í formi breytanlegs skuldabréfs. Fjármögnunin var kynnt á vel sóttum hluthafafundi í nóvember þar sem áform næsta árs voru kynnt og voru viðtökur jákvæðar. Þessi fjármögnun Mýsköpunar er eins konar brúarfjármögnun og þýðir að fyrirtækið getur haldið áfram sinni örþörungaræktun og rannsóknum áður en stærra skref er tekið í fjármögnun.
Rekstur næsta árs tryggður
Fjármögnuninni er ætlað að fjármagna rekstur komandi árs. Á árinu 2024 jók Mýsköpun framleiðslugetu sína með gangsetningu hátækni ræktunarbúnaðar fyrir örþörungaframleiðslu fyrirtækisins. Innleiðing ræktunarkerfisins gerir fyrirtækinu kleift að gera þær tilraunir sem nauðsynlegar eru til að auka verðmæti framleiðslu fyrirtækisins.
Ingólfur Bragi Gunnarsson framkvæmdastjóri Mýsköpunar: ,,Afar ánægjulegt er að finna fyrir trausti hluthafa og að fjármögnunin kemur til með að hraða framgangi félagsins og efla bæði rannsóknir þess og framleiðslu. Lögð verður aukin áhersla á framleiðslu verðmætra litar- og andoxunarefna, en eftirspurn eftir slíkum afurðum eykst stöðugt”.
Um Mýsköpun
Mýsköpun er líftæknifyrirtæki staðsett í Mývatnssveit og hefur einangrað ýmsa hagnýta örþörunga úr Mývatni. Fyrirtækið hlaut nýlega 20 m.kr styrk frá Tækniþróunarsjóði í samstarfi við Matís, Samherja fiskeldi og Laxá fóðurverksmiðju til að rannsaka viðbót örþörunga í fóður laxaseiða og áhrif þess á vöxt og heilsu seiðanna. Framgangur verkefnisins hefur verið góður, en niðurstaðna er að vænta seinni hluta næsta árs. Meðal helstu hluthafa Mýsköpunar eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Þingeyjarsveit, Fjárfestingarfélag Þingeyinga ehf, KEA og fleiri smærri hluthafar af starfssvæði fyrirtækisins.