27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Íslandsbanki styður áfram við bakið á Völsungi
Líkt og undanfarin ár hafa íþróttafélagið Völsungur og Íslandsbanki gert með sér samstarfssamning sem hefur það að markmiði að styðja Íþróttafélagið Völsung í íþrótta- og uppeldislegu hlutverki sínu á Húsavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Þar segir að einnig sé lögð áhersla á að kynjahlutföll þeirra sem njóta styrkja úr samningnum séu jöfnuð.
Samningurinn sem gildir út árið 2023 felur m.a. í sér, að auk árlegs styrks, sem stjórn Völsungs sér um að skipta á milli deilda félagsins, þá veitir Íslandsbanki viðurkenningar þar sem íþróttafólk Völsungs er heiðrað í lok ársins.
Einnig tekur Völsungur að sér umsjón og framkvæmd Mærudagshlaups Íslandsbanka. Hlaupið er haldið á laugardegi um Mærudagshelgi.
„Að styðja vel við æskulýðs- og íþróttastarf skiptir miklu máli fyrir Íslandsbanka og því er vel við hæfi að slíkur samningur sé stærsti einstaki styrktarsamningur útibúsins enda Völsungur öflugur hornsteinn samfélagsins og gegnir bæði mikilvægu uppeldis- og samfélagslegu hlutverki á svæðinu . Í styrktarsamningnum er einnig lögð sérstök áhersla á að jafnréttissjónarmið sé höfð til hliðsjónar við úthlutun styrkja úr samningnum“ segir Margrét Hólm útibússtjóri Íslandsbanka á Húsavík.