Isavia tekur yfir slökkvi- og björgunarþjónustu á Akureyrarflugvelli
Starfsmenn Isavia tóku í dag yfir slökkvi- og björgunarþjónustu sem Slökkviliðið á Akureyri hefur haft með höndum á Akureyrarflugvelli sl. 10 ár. Af því tilefni var efnt til samsætis á flugvellinum, þar sem þeir Sigurður Hermannsson umdæmisstjóri Isavia og Þorbjörn Guðrúnarson slökkviliðsstjóri á Akureyri skiptust á gjöfum og þökkuðu fyrir samstarfið síðasta áratug. Isavia og Slökkviliðið á Akureyri munu þó áfram eiga samstarf en saman eiga þessir aðilar m.a. slökkvibíl, sem staðsettur er hjá SA.
Alls voru tíu nýir starfsmenn ráðnir til Isavia og eru starfsmenn stofnunarinnar á Akureyrarflugvelli því orðnir 25 talsins. Sigurður Hermannsson segir að með þessari breytingu á fyrirkomulaginu, séu nú 15 manns að gegna þessari þjónustu á flugvellinum á vegum Isavia, þar á meðal slökkviþjónustu. Þetta er samþætting starfa og um leið kerfisbreyting. Við munum áfram eiga samstarf við slökkviliðið, bæði varðandi uppfærslu á flugvellinum (öryggisflokkahækkun) og slökkviliðið mun áfram sinna neyðarþjónustu varðandi flugvöllinn.
Þorbjörn slökkviliðsstjóri sagði að við þessa breytingu fækki starfsmönnum Slökkviliðs Akureyrar um tíu en fimm af þeim hafa fengið vinnu á flugvellinum og það segir hann jákvætt. Það verður áfram samstarf milli aðila, við eigum saman slökkvibíl og þá eigum við kost á því að kalla menn til aðstoðar ef upp kemur stærri vá í bæjarfélaginu. Það er eins ef á flugvellinum verður óhapp, þá er Slökkvilið Akureyrar kallað til.
Þorbjörn segir að samstarfið hafi verið farsælt sl. 10 ár og hann hefði viljað sjá um þennan þátt á flugvellinum áfram og efla hann á þeim grunni. En við verðum að gefa þeim tækifæri á að fóta sig með þetta aftur eftir 10 ár og óskum þeim heilla í því.