20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Improv Ísland aftur til Akureyrar
Á laugardagskvöld klukkan 20 er dúkað fyrir magnaða upplifun í Samkomuhúsinu á Akureyri þegar spunaleikhópurinn Improv Ísland treður upp.
Improv Ísland er leikhópur sem sérhæfir sig í langspuna. Hver sýning er spunnin á staðnum út frá einu orði frá áhorfendum og ekkert er ákveðið fyrirfram. Hvorki óahorfendur né leikarar vita því hvað mun gerast. Improv Ísland hefur sérhæft sig í nokkrum mismunandi formum langspunans, m.a söngleikjaspuna þar sem heill söngleikur er spunninn á staðnum. Á hverri sýningu eru sýnd mismunandi form langspuna.
Spunaleikhópurinn hefur hlotið mikið lof fyrri fyndnar, óútreiknanlegar og kraftmiklar sýningar. Troðfullt var á allar sýningar hópsins síðasta vetur í Þjóðleikhúskjallaranum. Hópurinn var tilnefndur til Grímuverðlaunanna 2016 sem Sproti ársins.
„Spunaleikararnir einbeita sér að núinu og rannsaka það á sviðinu í senunum. Þeir nota efni úr sínu lífi, umhverfi og samtíma til að byggja upp senurnar,“ segir Ásrún Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri leikhópsins.
Hún segir að upphafspunktur sýninganna getui verið margs konar. „Við byrjum oft á að fá orð úr sal til þess að áhorfandinn finni skýrt fyrir því að ekkert hafi verið ákveðið fyrirfram,“ segir Ásrún og bætir við: „Núna erum við á leiðinni til Akureyrar og ætlum að sýna eina sýningu í Samkomuhúsinu. Við hlökkum mjög til þess að koma! Við komum líka í fyrra og það var heldur betur stemning.“
Hópurinn hefur komið fram víðsvegar um landið og í Bandaríkjunum á síðastliðnum árum við mjög góðar undirtektir.
Listrænn stjórnandi er Dóra Jóhannsdóttir