Iðnaðarsafnið á Akureyri Kraftur í smíði líkana af sögufrægum skipum

Þorsteinn Arnórsson fyrrverandi safnstjóri Iðnaðarsafnsins og Elvar Þór Antonsson sem er að smíða lí…
Þorsteinn Arnórsson fyrrverandi safnstjóri Iðnaðarsafnsins og Elvar Þór Antonsson sem er að smíða líkan af Húna. Verkið er langt komið og verður afhjúpað við hátíðahöld í tengslum við sjómannadaginn.

Verið er að leggja lokahönd á smíði líkans af eikarbátnum Húna sem fagnar 60 ára afmæli sínu á vordögum. Það verður afhjúpað við athöfn sem efnt verður til við hátíðarhöld í tengslum við sjómannadaginn í byrjun júní. Elvar Þór Antonsson á Dalvík smíðar líkanið af Húna og er það svo gott sem tilbúið að sögn Sigfúsar Ólafs Helgasonar safnstjóra Iðnaðarsafnsins.

Við athöfnina verður þess einnig minnst að 80 ára eru liðin frá því Sæfell EA var smíðað, en bæði voru skipin smíðuð hjá Skipasmíðastöð KEA. „Þetta verður mikil veisla og við munu heiðra minningu þessarar skipa og áhafna þeirra. Þá má ekki gleyma Hollvinum Húna sem eiga heiður skilinn fyrir að hlú svo vel að bátnum sem raun ber vitni. Þess  ber líka að geta að hjónin Erna Sigurbjörnsdóttir og Þorvaldur Skaptason björguðu Húna á sínum tíma frá því að lenda á ármótabrennu á Seyðisfirði.“

Stellurnar komu frá Færeyjum og urðu Svalbakur og Sléttbakur

Sigfús segir Iðnaðarsafnið í samstarfi við ÚA sjómenn vera með tvo stóra bolta á lofti auk Húnaverkefnisins. Annars vegar stendur yfir söfnun sem snýst um að smíða líkan af skipum sem nefndust á sinni tíð Stellurnar.  ÚA keypti togarana frá Færeyjum, tvö sams konar skip, Stellu Karinu og Stellu Kristínu. Fimmtíu ár verða 1. nóvember næstkomandi liðin frá því skipin komu til Akureyrar og fengu nöfnin Svalbakur og Sléttbakur .  „Þetta voru glæsileg skip, að margra mati fallegustu togarar í íslenska flotanum og því  verður mikill fengur fyrir okkur að eignast líkan af slíku skipi. Við erum að safna fyrir þessu en vantar herslumuninn,“ segir hann. Stefnt er það því að skrifa undir samning um smíði líkansins 17. maí næstkomandi, en þann dag árið 1947 kom Kaldbakur, fyrsti togari ÚA í fyrsta sinn til Akureyrar. .   Elvar Þór, sá sem nú leggur lokahönd á smíði líkans af Húna mun einnig smíða líkan af annarri Stellunni.

Þá nefnir Sigfús að á næsta ári, 19. desember árið 2024 verði liðin 50 ár frá því ÚA fékk svonefnda Spánverja til Akureyrar, en um var að ræða togarana, Kaldbak og Harðbak sem smíðaðir voru á Spáni.  „Við viljum einnig minnast þeirra tímamóta og stefnum á að hefja söfnun fyrir líkani af Kaldbak/Harðbak sem yrði tilbúið fyrir jólin á næsta ári.“

Nýjast