Iceland Airwaves haldin á Akureyri og Reykjavík
Iceland Airwaves tónlistarhátíðin verður haldin á Akureyri auk Reykjavíkur á næsta ári, dagana 1. til 5. nóvember 2017. Þetta verður í 19. sinn sem tónlistarhátíðin fer fram. Að venju mun hátíðin fara fram á 13 tónleikastöðum í miðbæ Reykjavíkur og bætist nú Akureyri við. Stefnt er að því að nota tvo til þrjá tónleikastaði á Akureyri og að fram komi á bilinu 20 til 26 innlend og erlend tónlistaratriði. Jafnframt verða utandagskrártónleikar í bænum (off-venue) á völdum stöðum. Þetta kom fram á blaðamannfundi sem haldin var á Græna hattinum rétt í morgun en stór hluti hátíðinnar á Akureyri fer einmitt fram á Græna hattinum.
Nánar er fjallað um málið í Vikudegi sem kemur út í dag og rætt við Grím Atlason framkvæmdastjóra hátíðarinnar og Hauk Tryggvason staðarhaldara á Græna hattinum.