Íbúum Grenivíkur fjölgar og fólk vantar til starfa

Guðný Sverrisdóttir. Mynd/Karl Eskil
Guðný Sverrisdóttir. Mynd/Karl Eskil

Guðný Sverrisdóttir hefur gegnt stöðu sveitarstjóra Grýtubakkahrepps í 25 ár. Hún segir að atvinnilífið á staðnum sé blómlegt.

 „Það skiptir höfuðmáli fyrir lítið samfélag að atvinnulífið sé í lagi. Hér höfum við öfluga fiskvinnslu sem Gjögur hf. rekur og er stærsti atvinnuveitandinn  á staðnum. Svo má nefna harðfiskverkunina Darra, Frosta, Pharmactica, Sparisjóðinn og vélsmiðjuna. Það er frekar að það vanti starfsfólk á þessa vinnustaði.“

Fjölgun

„Fólkinu í sveitarfélaginu er alltaf að fjölga, íbúarnir voru 351 í desember í fyrra sem er um 5% aukning á milli ára. Það stefnir í talsverða fjölgun á þessu ári og mér sýnist að í lok árs verði íbúatalan farinn að nálgast 370. Þannig að það er mikill uppgangur í sveitarfélaginu.“

Hvernig stendur Grýtubakkahreppur fjárhagslega?

„Mjög vel.

Hvað segir þú um veiðigjaldið ?

 „Hérna bölva menn veiðigjaldinu sem er hreinlega skelfilegt. Þetta kemur verst við smærri útgerðir, þær einfaldlega þola þetta ekki. Það gengur ekki ef aldagömul útgerð fer á knén við þetta útspil ríkisstjórnarinnar,“ segir Guðný.

Er hætta á fjöldauppsögnum ?

 „Fyrirtæki hljóta að þurfa að hagræða ef þau eiga ekki að fara í þrot. Slíkt þýðir uppsagnir sem koma beint niður á rekstri sveitarfélagsins.“ 

Öflugt atvinnusvæði með nýjum göngum

„Nálægðin við Akureyri er okkur mikilvæg og ég segi stundum að Grenivík sé eitt af úthverfum Akureyrar. Nálægð við þá þjónustu og menningu sem þar er skiptir miklu máli fyrir okkur. Akureyringar þurfa að átta sig á því að það skiptir þá einnig máli að hafa öflugt bakland. Þegar Vaðlaheiðargöng verða að veruleika má líta á Eyjafjörð og Þingeyjarsýslu sem eitt stórt atvinnusvæði. Ef mönnum þóknast að vinna vel saman gæti þetta svæði myndað mjög sterka heild.“

Nánar er rætt við Guðný í prentútgáfu Vikudags.

throstur@vikudagur.is

Nýjast