27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Í versluninni Aftur nýtt er áhersla lögð á endurnýtingu
„Það hefur orðið mikil jákvæð vakning í þessum málum og margir að átta sig æ betur á því að sóun er bara alls ekki lengur í tísku,“ segir Dagný Fjóla Elvarsdóttir sem ásamt eiginmanni sínum Brynjari Inga Hannessyni rekur verslunina Aftur nýtt í Sunnuhlíð á Akureyri. Þar gefst hverjum sem það vill kostur á að leiga pláss, einn bás eða fleiri og selja fatnað, skó, leikföng, eða bækur svo dæmi séu nefnd. Alls eru í boði 48 básar og yfirleitt allir fullnýttir.
Evrópska nýtnivikan stendur nú yfir en hún er samevrópskt átak sem hefur að markmiði að hvetja fólk til að draga úr óþarfa neyslu, nýta hluti betur og draga þannig úr myndun úrgangs.„Það er svolítið skemmtilegt að nýtnivikan kemur beint ofan í þessa daga þegar kaupæði rennur á marga landsmenn vegna Svarta föstudagsins og fleiri álíka nettilboðsdaga þar sem reynt er að örva kaupgleði viðskiptavina með því að bjóða ríkulega afslætti. Þessi afslættir eru svo þegar betur er að gáð oft blekkingsem gerð er í því skyni að sýna fram á að verið sé að bjóða upp á hagstæð verð,“ segir Dagný.
Beint út í djúpu laugina
Hún hefur rekið verslunina í fjögur ár, opnaði í lok október árið 2018 og þá til að byrja með eingöngu með barnafatnað. Örfáum mánuðum síðar var boðið upp á verslun með allrahanda fatnað. „Við eiginlega hoppuðum beint út í djúpu laugina, við fengum þessa hugmynd og það sem varð til þess að við slógum til var aðstoð sem við fengum hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar var okkur hjálpað við að setja dæmið upp og skoða málið fram og til baka. Þegar svo við ákváðum að slá til gerðust hlutirnir hratt,“ segir Dagný um fyrstu skrefin. „Við vorum svo að segja komin með allt nema húsnæði, ég búin að segja upp vinnunni minni og alveg til í nýtt starf í eigin rekstri. Það má orða það svo að við höfum grenjað okkur inn í Sunnuhlíð, við vildum endilega vera þar, staðsetning er góð og verðið var viðráðanlegt.“
Brynjar hefur smíðað innréttingar verslunarinnar og þau byggja mikið á að nýta eldra efni sem til var þar sem þess er kostur, enda í samræmið við hugsunina á bak við reksturinn. Dagný segir að greinilega hafi verið þörf fyrir framtak af þessu tagi, en fyrirkomulagi er með þeim hætti að þeir sem t.d. eiga fullan fataskáp og vilja gefa góðum flíkum framhaldslíf annars staðar geta leigt bás og boðið hann til sölu. Á hillum undir er svo hægt að koma fyrir varningi af öðru tagi sem heimilið hefur ekki lengur not fyrir, skó, leikföng, skraut, skart, bækur eða hvað sem er. „Það finnst mörgum þetta þægilegt fyrirkomulag, fólkið setursjálft upp sinn varning og við sjáum svo um afganginn, það er vissulega mikil sala á notuðum fötum á netinu en sumir vilja vera lausir við umgang heima hjá sér sem slíkri sölu fylgir. Það er líka gott fyrir þá sem eru að skoða að geta gengið að öllu úrvalinu hér á einum stað,“ segir Dagný.
Þakklát fyrir góðar viðtökur
Hún segir að starfsemin hafi farið vel af stað og árið 2019 verið mjög gott. „Við fórum eiginlega af stað með algjörri sprengju, það var mikið að gera strax. „Kórónuveiruárin hafi vissulega sett verulegt strik í reikninginn, en þá hafi fólk almennt dregið úr verslunarferðum þegar faraldurinn var skæðastur. Dagný segir að kóvidtímabilið hafi þó leitt af sér að farið var út í þróun netverslunar og sú verslun er nú komin í fullan gang. Hver og einn leigjandi hefur val um hvort hann setji sínar vörur í netverslun og nýta flestir það. Viðskiptavinir hafa því kost á að skoða úrvalið heima á netinu og komið síðan í verslun til að máta og skoða.
Nú í ár hafi starfsemin á ný farið á gott skrið. „Við erum mjög þakklát fyrir þessar góðu viðtökur, það er greinilegt að fólk vill endurnýta hluti, ég held það sér ríkt í okkur Akureyringum, en löng hefð ef fyrir alls kyns flokkun og flestir meðvitaðir um þessi mál,“ segir hún. „Við verðum bæði vör við að þeir sem selja og kaupa eru ánægðir með fyrirkomulagið, margir gera góð kaup, fá fínar vörur á góðu verði.“