Hvetja til aðgæslu við vatnsverndarsvæði Akureyringa

Mynd af heimasíðu Norðurorku.
Mynd af heimasíðu Norðurorku.

Norðurorka hefur undanfarið staðið fyrir árveknisátaki þar sem minnt er á mikilvægi þess að ganga vel um vatnsverndarsvæði í Eyjafirði, að fólk sýni aðgát og láti strax vita ef vaknar grunur um mengun. Greint er frá þessu á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Þar segir að um 75-80% neysluvatns bæjarbúa á Akureyri komi úr Hlíðarfjalli en Selllandslindir og Hesjuvallalindir séu hvorar sínum megin við skíðasvæði Akureyringa. Eitt af mikilvægum verkefnum Norðurorku sé að tryggja nægilegt magn af hreinu og góðu neysluvatni til einstaklinga og fyrirtækja á veitusvæðinu. Þess vegna sé mikilvægt að ganga vel um vatnsverndarsvæðin og láta strax vita ef grunur leikur á um mengun.

„Óhöpp eða mengun á vatnsverndarsvæði skal tilkynna strax til Norðurorku svo hægt sé að bregðast við samstundis,“ segir í tilkynningunni.

Sjá nánar á heimasíðu Norðurorku.

Nýjast