Hvað gengur mönnum til?
Það er stundum erfitt að átta sig á því hvað mönnum gengur til. Hér er ég að vitna til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja það vera forgangsmál á Alþingi að brjóta niður íslenska verkalýðshreyfingu, sama hvað það kostar. Það er grátbroslegt að hugsa til þess að þingmennirnir telja að með því að skerða aðgengi launafólks að stéttarfélögum efli það félögin og vitna þeir til Norðurlandanna hvað það varðar.
Nú vill svo til að ég þekki ágætlega til þessara mála í okkar nágrannalöndum, þar sem ég sat í stjórn Nordisk Union um tíma, en það eru samtök verkalýðsfélaga í matvælaframleiðslu á Norðurlöndunum. Þar hafa hægri stjórnir lengi lagt sig fram um að veikja verkalýðshreyfinguna, enda gerðar út af auðvaldinu í viðkomandi löndum líkt og á Íslandi. Því miður hefur þessum aðilum tekist það ætlunarverk sitt. Erlendum starfsmönnum sem komið hafa til starfa í Skandinavíu hefur markvisst verið haldið utan stéttarfélaga svo þeir geti ekki sótt kjarasamningsbundinn rétt sinn sé brotið á þeim sem er daglegt brauð. Aðbúnaður þessara starfsmanna hefur verið skelfilegur auk þess sem launakjörin hafa verið langt fyrir neðan skráð lágmarkslaun. Þá eru dæmi um að vegabréfum erlendra starfsmanna hafi verið haldið eftir hjá eigendum fyrirtækjanna til að koma í veg fyrir að þeir yfirgæfu vinnustaðinn án samþykkis yfirmanna. Því til viðbótar hefur mafían í austantjaldsríkjunum verið að gera út verkamenn til starfa í Skandinavíu. Verkalýðshreyfingin hefur átt erfitt með að mæta þessum veruleika vegna skorts á valdheimildum. Þetta er umhverfið sem blasir við okkur takist þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að brjóta niður öfluga verkalýðshreyfingu á Íslandi. Verkalýðshreyfingu sem flestar þjóðir heims öfunda okkar af enda hefur hreyfingin komið að mörgum framfaramálum fyrir íslenska alþýðu, sem við getum verið stolt af og rúmlega það.
Hlutverk stéttarfélaga
Á Íslandi hefur okkur tekist að byggja upp öflug stéttarfélög, félagsmönnum til góða. Launamönnum er almennt heimilt að ganga í stéttarfélög eða standa utan þeirra. Gegn vægu félagsgjaldi sem byggir á jöfnuði hafa félögin myndað öryggisnet til handa félagsmönnum. Félögin hafa ávallt verið reiðubúin að grípa inn í, hafi þess þurft með. Það er hvort heldur um er að ræða almenna aðstoð á vinnumarkaði, veikindi félagsmanna, aðbúnaðarmál, orlofsmál og/eða lífeyrissjóðsmál. Svo ekki sé talað um aðkomu félaganna að velferðarmálum og atvinnumálum. Óhætt er að segja að starfsfólk stéttarfélaga sé ávallt til staðar þegar grípa þarf inn í aðstæður. Nærtækast er að taka dæmi úr því félagi sem ég leiði sem er Framsýn stéttarfélag. Innan raða þess er um þrjú þúsund félagsmenn í Þingeyjarsýslum. Á síðasta ári greiddi félagið um 1200 félagsmönnum sjúkrastyrki sem tengdust sérstaklega erfiðum veikindum og/eða fyrirbyggjandi aðgerðum til betri heilsu. Þessar greiðslur námu um 60 milljónum. Þar sem félagsmenn þurfa í auknum mæli að sækja heilbrigðisþjónustu til Akureyrar og/eða Reykjavíkur hefur félagið komið sér upp sjúkraíbúðum á Akureyri og Reykjavík til að mæta þörfum félagsmanna. Þá aðstoðaði félagið þá félagsmenn sem fóru í nám eða sóttu námskeið til að auka hæfni sína á vinnumarkaði um 22 milljónir. Rúmlega 300 félagsmenn tóku við þessum styrkjum sem gerði þeim flestum kleift að stunda námið með vinnu. Svona mæti lengi telja og væri efni í aðra grein. Það er því alveg ljóst að stuðningur Framsýnar til handa félagsmönnum skiptir verulega miklu máli. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins átta sig ekki á þessu hlutverki stéttarfélaganna, enda ekki í þeirra heimi að þurfa að hugsa um hverja krónu áður en stofnað er til kostnaðar. Hvað þá að þurfa að leita eftir stuðningi frá stéttarfélagi til að greiða niður kostnað s.s. vegna sálfræðiþjónustu, þar sem heimilisbókhaldið leyfir það ekki nema í boði sé styrkur frá viðkomandi stéttarfélagi. Að öðrum kosti þyrftu þeir í allt of mörgum tilfellum að neita sér um þessa lífsnauðsynlegu meðferð. Þetta er heimur lágtekjufólks í dag. Það væri óskandi að þingmennirnir umræddu opnuðu augun og mátuðu sig við venjulegt fólk sem býr við þessar aðstæður í stað þess að eyða sínum tíma, í að finna leiðir til að brjóta niður réttindi láglaunafólks, sem er hryggjarstykkið í íslensku þjóðfélagi. Þeir hinir sömu eru duglegir að pósta myndum af sér frá fundum og ráðstefnum sem þeir sækja um víða veröld á kostnað ríkissjóðs á háum dagpeningum, ferðir sem skipulagðar eru af ferðaskrifstofu Alþingis.
Ráfandi þingmenn
Það er alveg ljóst að styrkur stéttarfélaga mun hrynja takist villuráfandi þingmönnum að keyra frumvarpið í gegn um Alþingi. Upp í hugann kemur eitt af mörgum dæmum sem ástæða er til að nefna um mikilvægi stéttarfélaga. Það er bygging orkuvers Landsvirkjunar og kísilverksmiðju PCC á Bakka fyrir nokkrum árum. Þá kom til landsins fjöldinn allur af verkamönnum sem taldi vel á annað þúsund manns. Erlendu fyrirtækin ætluðu þessum mönnum að vera utan stéttarfélaga sem og nokkur íslensk fyrirtæki sem einnig sóttu erlenda starfsmenn. Framsýn kom í veg fyrir það og náði því fram að starfsmennirnir yrðu á íslenskum kjörum og greiddu til félagsins eins og lög og ákvæði kjarasamninga kveða á um. Vissulega voru dæmi um að erlendu starfsmennirnir væru hræddir og bæðu félagið um að skipta sér ekki af þeirra málum þar sem þeir óttuðust um fjölskyldur sínar heima fyrir. Þeir höfðu áhyggjur af því að atvinnurekendurnir eða starfsmannaleigurnar gerðu þeim illt kæmust þeir að því að þeir hefðu leitað til stéttarfélags vegna kjarasamningsbrota. Auk þess höfðu þeir áhyggjur af þeim sem þetta skrifar og spurðu „Hvað telur þú að þú haldir höfðinu lengi?“ Því miður var það þannig og er enn að við sem tökum fast á kjarasamningsbrotum sitjum reglulega undir hótunum og það jafnvel líflátshótunum. Þess vegna ekki síst höfum við kallað eftir hertari löggjöf er varðar starfsemi fyrirtækja sem ástunda launaþjófnað. Á uppbyggingartímanum á Þeistareykjum og Bakka tryggði Framsýn líka að fyrirtækin færðu lögheimili/búsetu starfsmanna til sveitarfélaganna á áhrifasvæði framkvæmdanna svo útsvarstekjurnar yrðu þar eftir, í stað þess að þeir væru skráðir til heimilis hjá þeim fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu sem fluttu þá inn til landsins. Þannig tryggði Framsýn sveitarfélögunum væntanlega milljónatugi í útsvarstekjur. Við fengum þakklæti frá sveitarfélögunum fyrir aðkomu okkar að málinu. Við fengum líka þakkir frá fyrirtækjum á svæðinu fyrir að koma í veg fyrir undirboð, þar sem allt of mörg fyrirtæki sem komu að verkinu ætluðu sér ekki að fara eftir settum reglum. Já, öflug stéttarfélög eru gríðarlega mikilvæg. Stéttarfélög líkt og Framsýn hafa auk þess barist fyrir mörgum framfaramálum í gegnum tíðina er varðar byggða- og atvinnumál. Þá hefur sú barátta Framsýnar að viðhalda flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll vakið töluverða athygli enda íbúum, félagsmönnum og atvinnulífinu í Þingeyjarsýslum til hagsbóta. Ég skal fúslega viðurkenna að ég skil núna af hverju oddviti sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi hefur ekki haft fyrir því að svara erindum Framsýnar um mikilvægi þess að þingmenn kjördæmisins komi að því með heimamönnum að efla flugsamgöngur til Húsavíkur, eða komi að því að bæta vegasamgöngur á svæðinu s.s. í Bárðardal, svo ekki sé talað um fleiri framfaramál í Þingeyjarsýslum. Greinilegt er að allur hans tími hefur farið í að setja saman frumvarp með félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum, sem ætlað er að ganga frá íslenskri verkalýðshreyfingu, sem segir okkur að forgangsröðunin er skýr hjá þingmanninum. Við skulum hafa þetta í huga kjósendur góðir, þetta er ekki boðlegt, reyndar til háborinnar skammar.
Ríkisstjórnin í hættu
Hvað frumvarp Sjálfstæðismanna varðar tel ég að það fari aldrei í gegn um þingið. Reyndar gæti það kostað að ríkisstjórnin myndi springa. VG og Framsókn geta án efa ekki samþykkt að frumvarpið fari í gegn um þingið, enda byggja þeir flokkar á allt öðrum gildum en Sjálfstæðisflokkurinn sem með þessu frumvarpi minnir okkur ónotalega á fyrir hvað þeir standa og fyrir hverja þeir eru málpípur á þingi. Þá hafa þingmenn Samfylkingarinnar talað gegn frumvarpinu sem ber að þakka fyrir. Það er nefnilega þannig að við sem förum fyrir stéttarfélögum og flestir þeir félagsmenn sem eru innan ASÍ, BSRB og annara samtaka launafólks hlusta af athygli þegar þingmenn tjá sig um eitt vitlausasta þingmál sem komið hefur fram á Alþingi á síðari tímum. Síðan geri ég þá kröfu að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem standa að frumvarpinu íhugi afsögn nái þeir ekki frumvarpinu í gegn um Alþingi. Það er ekki í boði að greiða slíkum niðurrifsöflum laun með skattpeningum verkafólks, þingmanna sem vinna gegn hagsmunum megin þorra landsmanna enda yfir 90% af fólki á vinnumarkaði í öflugum stéttarfélögum. Þeim væri nær að vinna að þarfari málum á þingi s.s. að jafna búsetuskilyrði í landinu þar sem hallar verulega á landsbyggðina ekki síst hvað varðar heilbrigðis- og menntamál.
Aðalsteinn Árni Baldursson