Hvað ef?

Regína Ólafsdóttir er sérfræðingur í klínískri sálfræði og starfar hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunn…
Regína Ólafsdóttir er sérfræðingur í klínískri sálfræði og starfar hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni

· Hvað ef það er kónguló í skónum mínum?

· Hvað ef ég bakka á staur?

· Hvað ef ég dett?

· Hvað ef allir hlæja að mér?

· Hvað ef lyftan festist?

· Hvað ef ég er að fá hjartaáfall?

· Hvað ef geitungur stingur mig?

· Hvað ef ég geri mistök?

· Hvað ef kjúklingabein festist í hálsinum á mér?

· Hvað ef það eru sýklar á þessu sem ég var að snerta?

· Hvað ef ég hendi óvart 10.000 kalli í ruslið?

· Hvað ef ég ræð ekki við þetta?

 Fannst þú fyrir kvíða þegar þú last þessar hugsanir?

Það er ekkert skrítið. Þetta eru nefnilega allt hugsanir sem gera okkur kvíðin, svokallaðar kvíðahugsanir.

 Kvíðahugsanir geta verið áhrifaríkar. Þær koma stundum í veg fyrir að við gerum það sem okkur langar til. Þessar hugsanir eiga það margar sameiginlegt að byrja á orðunum “hvað ef”. Stundum koma þær nokkrar í röð og enda á hræðilegum spádómi.

 Hræðilegi spádómurinn er það sem veldur mestum kvíða. Hugsunin sem fyrst kemur upp í hugann, til dæmis þær sem taldar voru upp hér að ofan, virðast ekki mjög ógnvekjandi en á eftir þeim geta komið hugsanir sem eru verri og verri þar til sú síðasta sprengir hræðsluskalann.

Til dæmis:
1) Hvað ef ég geri mistök
2) Hvað ef einhver tekur eftir því
3) Hvað ef aðrir sjá að ég er vitlaus
4) Mér verður hafnað

 Síðasta hugsunin er sú sem hræðir okkur mest. Sú hugsun snýst oft um að við deyjum eða einhver nákominn okkur deyji, að aðrir dæmi okkur/hafni eða yfirgefi. Hún snýst um það allra versta sem við getum ímyndað okkur. Oft er þessi spádómur afar ólíklegur og við áttum okkur fljótt á því. Í einhverjum tilvikum getum við jafnvel hlegið að vitleysunni sem okkur datt í hug. En einstaka sinnum festumst við og náum ekki að átta okkur á hversu óraunverulegur spádómurinn er. Því miður er það svo auðvitað að það sem við óttumst er ekki endilega ólíklegt. Til dæmis þegar við eða okkur nánustu glíma við alvarlegan sjúkdóm. Þá þarf annars konar nálgun en þeirri sem ég segi frá í þessari grein.

 Það eru til margar gagnlegar leiðir til að glíma við kvíða. Til dæmis hefur hugræn atferlismeðferð reynst gagnleg til að glíma við ýmsar kvíðaraskanir. Í þeirri meðferð er unnið markvisst með að skoða hugsanir sem valda kvíða, skora á þær, horfast í augu við þær og farið í aðstæður sem valda kvíða. Oft er hægt að ná góðum tökum á kvíða þegar unnið er markvisst með hann í 6-12 sálfræðiviðtölum. Einnig eru margir sem velja frekar námskeið eða hópmeðferð og takast á við kvíðann, samferða öðrum með sambærilegan vanda.

 Þegar við erum kvíðin þá erum við oft að spá það versta sem gæti gerst. Oft er kvíðinn viðráðanlegur og við getum nokkuð auðveldlega tekist á við hann. Við getum til dæmis spurt okkur:

· Hvað ef allt fer vel?

· Hvað er það besta sem getur gerst?

En stundum tekst okkur ekki að takast á við kvíðann án aðstoðar til dæmis frá okkar nánustu og/eða fagaðilum. Þá eru fyrstu skrefin að átta sig á hvað við erum hrædd við. Fyrsta hugsunin er ekki endilega það sem við óttumst mest. Sú hugsun liggur oft í leyni og við þurfum að skoða vel hugsanir okkar til að finna hana. Árangursríkasta aðferðin er að skoða og skora á þessa verstu hugsun þangað til við erum komin með hjálplegri hugsanir og aðferðir sem annað hvort losa okkur við kvíðann eða gera hann viðráðanlegri.

 Hvað ef ég er stungin af geitungi, meiði mig en jafna mig svo?

Hvað ef það er kónguló í skónum mínum og hún er bara lítil og sæt?

 

Regína Ólafsdóttir

Höfundur er sérfræðingur í klínískri sálfræði og starfar hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni

 

Nýjast