Hugmyndir um fjölmarga staði fyrir hverfahleðslustöðvar
Norðurorka og Akureyrarbær hafa í sameiningu sett fram hugmyndir um fjölmarga staði fyrir hverfahleðslustöðvar þ.e. staði víða um bæinn þar sem gæti hentar vel að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla.
„Markmiðið er annars vegar að bæta þjónustu við íbúa og að draga úr þörfinni fyrir að hvert og eitt heimili komi sér upp eigin hleðslustöð, því að slíkar stöðvar hafa takmarkaða nýtingu og í sumum hverfum gæti það skapað álag á dreifikerfið umfram það sem æskilegt er. Hins vegar að bæta þjónustu við ferðamenn enda fjölgar þeim ört sem hingað koma á rafbílum og við sjáum það á stórum ferðahelgum núna í vetur að það er mikil ásókn í þær hleðslustöðvar sem þegar eru komnar í gang á Akureyri,“ segir Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, en minnisblað um áform vegna uppsetningar hverfishleðslustöðva á Akureyri var lagt fram á fundi ráðsins nýverið.
Andri segir að nærtækustu staðir fyrir hverfahleðslu eiga það sameiginlegt að þar er gott aðgengi að raforku, nóg pláss fyrir bílastæði eða það jafnvel nú þegar fyrir hendi, og að staðurinn myndi henta mörgum. „Ekki spillir fyrir að á sumum þessara staða standa framkvæmdir fyrir dyrum og því tilvalið að setja upp hleðslustöð í leiðinni,“ segir hann.
Um það bil 20 staðir víðs vegar um bæinn koma helst til álita, en mun fleiri staðir koma einnig til greina. Sem dæmi um áhugaverða staði má nefna Merkigil, Strandgötu og Skógarlund.
Gert er ráð fyrir að leita til raforkufyrirtækja um samstarf við uppsetningu og rekstur stöðvanna