6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Hrísey og Grímsey hljóta veglegan styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða
Á föstudag var tilkynnt að 28 verkefni hljóti styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða 2023 fyrir alls 550 milljónir. Verkefnið "Hrísey - greið leið um fornar slóðir" hlaut 27 milljónir króna og "Grímsey - bætt upplifun og öryggi" hlaut 6,8 milljónir króna, hvort tveggja eru verkefni sem Akureyrarbær sótti um fyrir hönd eyjanna.
Framkvæmdasjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að öryggi ferðamanna, náttúruvernd og uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja.
Hér að neðan eru nánari upplýsingar um verkefnin.
Hrísey - greið leið um fornar slóðir
Hrísey er vinsæl til útivistar og eru þar nokkrar merktar gönguleiðir. Unnið hefur verið að uppbyggingu gönguleiðanna undanfarin ár og fyrir síðustu áramót var lokið við áningarstaðinn Háborðið sem tengir nokkrar gönguleiðir í eyjunni, verkefni sem einnig var styrkt af Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.
Verkefnið að þessu sinni snýr að lengstu gönguleiðinni, þeirri rauðu (sjá kort). Leiðin sem um ræðir er um 3.200 metrar og fylgir að mestu „kindagötum“ sem á köflum eru orðnar mjög hættulegar þar sem sjórinn hefur grafið undan bökkum. Stefnt er að því að gera 1,2 metra breiðan stíg með salla, færa hann þar sem þess er þörf lengra frá ströndinni, huga að öryggismálum, jarðvegs- og vatnsrofi, og bæta aðgengi fyrir sem flesta og opna svæðið fyrir fleiri útivistarhópa, gangandi, hjólandi og skíðandi.
Rauða leiðin er m.a. áhugaverð hvað varðar sögu og náttúrufyrirbrigði. Þar má sjá þústir af bænum Hvatastöðum sem talinn er með fyrstu búsetustöðum landnámsmanna í Eyjafirði. Á leiðinni eru einnig margar sérstakar klettamyndanir, til að mynda Borgarbrík sem er með fallegri stöðum í eynni.
Grímsey – bætt upplifun og öryggi
Verkefnið felst í því að gera göngustíg frá þorpinu að afleggjaranum að flugstöðinni, leið sem nú þegar má sjá móta fyrir að hluta. Markmið verkefnisins er að bæta upplifun gesta og öryggi með því að stýra þeim af akveginum og færa þá nær náttúrunni og áhugaverðum stöðum á þessari leið, m.a. Sandvíkurtjörn, klettadröngum og víkum, haug Gríms landnámsmanns og konu hans, að skjólvegg og útsýnisstað með meiru, sjá kort af leiðinni.
Gera þarf um 1,2 metra breiðan sallarstíg sem verður um 760 m langur frá tjörninni norðan við þorpið og að veginum upp að flugvellinum en þaðan heldur fólk áfram eftir malarveginum til norðurs í átt að Básavíkinni og heimskautsbaugnum.
Verkefnið mun minnka álag og núning milli gesta og heimafólks, en akvegurinn sem göngustígurinn leysir af, er mikið notaður sérstaklega í ferju- og flugstoppi og því mikill hagur fyrir heimafólk að beina gestum yfir á göngustíginn.
Einnig verður gerður áningarstaður við Básavíkina sem er einn af mest heimsóttu björgum eyjarinnar, tilkomumikill staður með háum björgum og miklu fuglalífi. Þar verður byggður skjólvegg fyrir ríkjandi átt, með bekk og upplýsingaskilti um fuglalífið og hættuna sem stafar af lundaholunum og snörpum vindkviðum við björgin. Áningarstaðurinn verður þar sem hann truflar fuglalífið og útsýnið sem minnst. Notað verður náttúruleg efni úr eyjunni í skjólvegginn svo hann falli sem best að umhverfinu.
Frá þessu er sagt á www.akureyri.is