20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hörður Kristinsson grasafræðingur – Minningarorð
Ef litið er til síðustu aldar eru það einkum þrír menn sem skarað hafa framúr í þeim fræðum sem sem fjalla um svonefndar háplöntur. Svo einkennilega vill til, að þeir hafa allir lifað og starfað á Akureyri. Stefán Stefánsson kennari við Möðruvalla- og síðar Gagnfræðaskóla á Akureyri ruddi brautina, með bók sinni Flóru Íslands (1901). Steindór Steindórsson kennari við Menntaskólann, tók við starfi hans og ávaxtaði það dyggilega á langri ævi.
Sá þriðji í röðinni er Hörður Kristinsson, sem andaðist 22. júní. Hann var kennari við M.A. í nokkra vetur, forstöðumaður Náttúrugripasafnsins þar 1973-1977, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands, 1977-1987, og forstöðumaður Akureyrarseturs Náttúrufræðistofnunar, til starfsloka 2007. Hörður var fæddur 29. nóv. 1937 á nýbýlinu Arnarhóli í Eyjafirði, og ólst þar upp. Hann varð stúdent frá M.A. vorið 1958, og hélt um haustið til Þýskalands, og innritaðist í líffræði við Háskólann í Göttingen. Þar vorum við Bergþór Jóhannsson fyrir í líffræðinámi, og urðu þar fyrstu kynni okkar þremenninga. Hörður lauk þar doktorsnámi 1966, með plöntusjúkdóma sem aðalgrein.
Allir höfðum við komist í kynni við plöntur á unga aldri gegnum Flóru Stefáns, og þekktum flestar tegundir íslenskra háplantna, en vissum að hinar „lægri plöntur“ voru fáum kunnar, og langaði til að bæta úr því. Niðurstaðan varð sú, að við skiptum þeim með okkur. Bergþór tók að sér mosana, Hörður flétturnar og ég sveppina, sem teljast ekki lengur til plantna.
Hörður lagði sig jafnframt eftir könnun á útbreiðslu plantna, og til þess fann hann upp á að skipta landinu í 10 x 10 km reiti, og skráði, ásamt fleirum, tegundir í hverjum reit. Þannig urðu til staðgóð kort yfir útbreiðsluna, sem ýmsir hafa notað síðan. Samhliða þessu tók hann mikinn fjölda mynda af þeim plöntum sem hann komst í færi við.
Árið 1986 birtist bók hans: Plöntuhandbókin – Blómplöntur og byrkningar, hjá forlaginu Erni og Örlygi, þar sem 365 tegundum er lýst í máli og myndum. Ólíkt eldri flórum var tegundum ekki raðað eftir skyldleika, en aðallega eftir blómalit. Árið 1983 hafði komið út bókin Íslensk flóra með litmyndum, eftir Ágúst H. Bjarnason, með sama skipulagi, nema að í henni eru teikningar í litum eftir Eggert Pétursson í stað ljósmynda.
Plöntuhandbók Harðar varð afar vinsæl og náði mikilli útbreiðslu,var einnig þýdd á ensku og þýsku. Segja má að hún hafi leyst eldri flórubækur af hólmi. Hún var endurútgefin af Máli og menningu 2010, undir nafninu Íslenska plöntuhandbókin – Blómplöntur og byrkningar. Þá hafði tegundum fjölgað um 100 frá fyrri gerð.
Árið 2018 birtist svo bók sú er kalla má biblíu eða kórónu íslenskra flórubóka, og ber heitið Flóra Íslands. Blómplöntur og byrkningar. Höfundar texta eru Hörður Kristinsson og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands. Eins og í bók Ágústar eru teikningar eða málverk í litum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Bókin er 740 bls. í stóru broti.
Hörður hélt lengi úti fjölrituðu fréttabréfi, sem kallað var Flóruvinir, en það er nú fyrir löngu komið á Internetið. Einnig stofnaði hann vefsíðuna floraislands.is, með lýsingum og ljósmyndum af flestum íslenskum háplöntum. Hún er nú í vörslu Náttúrufræðistofnunar.
Þó að við Hörður ættum ekki samleið í námi, unnum við mikið saman að því loknu, aðallega í Náttúrugripasafninu á Akureyri, m.a. við Sveppabókina (2010). Betri félaga og var ekki hægt að hugsa sér. Hann var fæddur fræðimaður, og grasafræðin var honum hugleikin allt til endadægurs. Þó var hann líka snjall harmonikuleikari. Stundum var engu líkara en að hann lifði í öðrum heimi. Ég sendi Sigrúnu Sigurðardóttur konu hans og dætrum innilegar samúðarkveðjur. – Helgi Hallgrímsson, Egilsstöðum.