Hollvinir SAk gefa fósturómsjá á fæðinga- og kvensjúkdómadeild SAk

Inda (Ingibjörg Hanna Jónsdóttir), yfirljósmóðir fæðinga- og kvensjúkdómadeildar SAk og Orri Ingþórs…
Inda (Ingibjörg Hanna Jónsdóttir), yfirljósmóðir fæðinga- og kvensjúkdómadeildar SAk og Orri Ingþórsson, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, við nýju ómsjána sem Hollvinir SAk færðu deildinni að gjöf fyrr í dag. Mynd: BB

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) afhentu fæðinga- og kvensjúkdómadeild Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) í dag nýja fósturómsjá. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða ómskoðunartæki til að greina og skoða fóstur.

 Fósturómsjáin er í daglegri notkun á deildinni og því mikilvægt að tækið sé af albestu gerð. Að auki afhentu Hollvinir SAk deildinni stórt sjónvarp til að setja á vegg og tengja tækinu. Það auðveldar aðstandendum að skoða myndir úr ómsjánni og nýtist einnig við kennslu og þjálfun nema.

Ómsjáin kostaði um 13 milljónir króna.

Jóhannes G. Bjarnason, formaður stjórnar Hollvina SAk, afhenti tækið formlega að viðstöddum nokkrum öðrum stjórnarmönnum.

,,Enn einu sinni njótum við á fæðingadeildinni gjafmildi Hollvina SAk. Í dag erum við að fá afhent formlega ómtæki GE E8 sérlega hannað til fósturgreininga. Fyrir áttum við fullkomið GE E10 ómtæki sem Hollvina samtökin gáfu deildinni 2020. 

Með mjög vaxandi kröfum og fjölgum ómskoðana á meðgöngu vantaði okkur sárlega annað fullkomið ómtæki og einnig til að koma í veg fyrir að þjónusta detti niður ef tæki bilar eins og við höfum lent í áður.

Þannig að nú er fæðingadeild SAk mjög vel tækjum búin til ómskoðana þökk sé Hollvinum SAk” sagði Alexander Kristinn Smárason  forstöðulæknir fæðingardeildar í samtali við vefinn. 

Nýjast