Hollvinir SAk færa Kristnesspítala góðar gjafir
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) færðu Kristnesspítala nýverið að gjöf 7 upphengisjónvörp í herbergi skjólstæðinga stofnunarinnar sem og tvö stór sjónvörp í dagstofu og fundarherbergi skjólstæðinga og starfsfólks. Tækin nýtast m.a. á fundum skjólstæðinga og starfsfólks, til fjarfunda og til afþreyingar.
Fjölmörg fyrirtæki komu að fjársöfnun vegna þessa verkefnis og er þeim þakkað heilshugar. Vert er að nefna Heimilistæki/Tölvulistann sérstaklega en fyrirtækið veitti Hollvinum SAk verulegan afslátt af kaupverði tækjanna. Þá var hlutur Hollvina SAk stór að venju en þeir mynda hryggjarstykkið í starfseminni með föstu, árlegu framlagi sem nemur 5.000 krónum.
Kaup á rúmlega 20 rafknúnum sjúkrarúmum næsta skref
Hollvinir SAk hafa þegar ráðist í næsta stóra verkefni sitt en það tengist líka Kristnesspítala. Ætlunin er að endurnýja alls á þriðja tug sjúkrarúma á stofnuninni. Um er að ræða rafknúin sjúkrarúm af fullkomnustu gerð en þau munu leysa af hólmi eldri rúm sem eru án slíkra tæknilausna og byggja einvörðungu á handafli skjólstæðinga og starfsfólks.
„Hollvinir SAk eru nú vel á þriðja þúsund og við stefnum markvisst að því að fjölga í hópnum,“ segir Jóhannes G. Bjarnason, formaður stjórnar Hollvina. „Ég hvet sem flesta Eyfirðinga til að ganga til liðs við okkur núna og leggja hönd á plóg með framlagi sínu.“ Hægt er að gerast Hollvinur SAk með því að fara á heimasíðu SAk og skrá sig þar. Smellið hér Einnig er hægt að senda póst á netfangið hollvinir@sak.is
Jóhannes hvetur jafnframt fyrirtæki og félagasamtök til að taka Hollvinum SAk fagnandi í söfnuninni. „Ef vel gengur náum við að afhenda nýju rúmin síðar á þessu ári og að því stefnum við ótrauð,“ segir hann. Þess má ennfremur geta í þessu sambandi að Hollvinir SAk endurnýjuðu endurhæfingartækin á Kristnesspítala fyrir nokkrum árum.
Um Kristnesspítala
Kristnesspítali í Eyjafjarðarsveit er um 10 km sunnan við Akureyri og er einn af stærstu vinnustöðum í sveitinni. Þar fara fram endurhæfingar- og öldrunarlækningar Sjúkrahússins á Akureyri og þar er einnig útibú frá Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga Íslands. Kristnesspítali var tekinn í notkun 1927 og þá sem berklahæli.
Grunnur starfsins er þverfagleg teymisvinna meðferðaraðila í samvinnu við skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra. Í teymunum starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafi, sjúkraliðar og aðstoðarfólk. Talmeinafræðingur og sálfræðingur koma inn í teymin þegar við á. Samvinna við þjónustuaðila utan stofnunarinnar er einnig mikilvægur þáttur í starfinu. Má þar nefna heilsugæslu og þá sérstaklega heimahjúkrun, ýmis úrræði á vegum Akureyrarbæjar auk Virk starfsendurhæfingarsjóðs. Mikilvægi Kristnes er ólýsanlegt og í raun hryggjarstykki í framhldi aðgerða á Sak en þar starfa afburða starfsfólk sem tekur á móti hverjum og eium af hlýju og virðingu.