20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hlutir gerast í Norðri
Dagana 27. - 30. september fer fram í fyrsta sinn hátíð vöruhönnunar á Húsavík og nágrenni. Þar mun almenningi gefast kostur á að kynna sér fag hönnuðarins. Áhersla verður lögð á mikilvægi vöruhönnunar í samfélaginu og hvernig hún hefur mótað okkar daglega líf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Miðstöð hönnunar og arkítektúrs.
Hátíðin ber yfirskriftina Hönnunarþing þar sem vöruhönnuðir koma saman víðsvegar að, sýna verk sín, halda fyrirlestra og gleðjast saman.
Hraðið, miðstöð nýsköpunar á Húsavík eru forsprakki þessarar metnaðarfullu hátíðar þar sem tvinnuð verður saman fagleg þekking á faginu og framúrskarandi tæknilegum aðbúnaði Hraðsins þar sem einu best búna Fab labi landsins hefur verið komið á legg.
Dagskrá hátíðarinnar samanstendur af sýningum bæði innlendra og erlendra hönnuða ásamt fræðandi fyrirlestrum á borð við kynningu á sögu vöruhönnunar, fyrirlestrum um verk og feril hönnuða, mikilvægi fagsins í daglegu lífi, snertifleti vöruhönnunar og gervigreinda og kynningu Listaháskóla Íslands á stefnu og kennslu fagsins svo eitthvað sé nefnt.
Vinnustofur og námskeið verða haldin fyrir börn og fullorðna. Einnig munu nemar í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands vinna að verkefni á svæðinu og sýna afrakstur þess á hátíðinni.
Viðburðir á borð við hönnunar pub quiz, hrað fyrirlestur um misheppnaða hönnun, fræðsla og pop up í Sjóböðunum ásamt tónleikum og gleðskap munu gera hátíðina líflega og skemmtilega. Þeir sem sækja fjölbreytta dagskrá hátíðarinnar gefst einnig fullkomið tækifæri til að virða fyrir sér hinar fögru náttúruperlur svæðisins en ekki síst nokkrar af hönnunar perlum svæðisins á borð við Sjóböðin á Húsavík, Jarðböðin í Mývatnssveit og hin nýju Skógarböð á Akureyri.
Skemmtileg hátíð sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.