„Hlustið á sjónarmið annarra“

118 voru brautskráðir frá VMA í gær
118 voru brautskráðir frá VMA í gær

Í gær voru brautskráðir 118 nemendur frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Í brautskráningarræðu sinni ræddi Hjalti Jón Sveinsson skólameistari m.a. um erfiða fjárhagsstöðu skólans og sagði að þrátt fyrir áralangan samdrátt í fjárframlögum til skólans og sparnaðaraðgerða af ýmsu tagi hafi tekist að halda úti óbreyttu námsframboði að langmestu leyti, en sl. haust hófu um 1200 nemendur nám í dagskóla og 500 í fjarnámi.


Lengra verður ekki gengið


„Nú er svo komið að lengra verður ekki gengið. Reyndar sagði ég þetta líka úr þessum ræðustóli fyrir nákvæmlega tveimur árum. Með hliðsjón af meintri stöðu þjóðarbúsins þurfum við að glíma við erfiðan rekstur á næsta ári þó svo að í fjárlögum næsta árs sé ekki gert ráð fyrir frekari niðurskurði á rekstrarfé til framhaldsskóla. Við höfum kappkostað að þessar aðstæður komi sem minnst niður á gæðum kennslu og annarra þátta skólastarfsins.
Ég vil þakka bæði nemendum skólans og starfsfólki fyrir umburðarlyndi og seiglu. Ég sagði það fyrir ári síðan úr þessum ræðustóli að skólastarf lægi undir skemmdum. Sú skoðun mín hefur því miður ekki breyst. En vonandi fer landið að rísa og ég er þess fullviss að þeir nemendur okkar sem eru að braustkrást hér í dag munu eiga sinn þátt í þeirri uppbyggingu sem framundan er í íslensku þjóðfélagi.“

Hlustið á sjónarmið annarra


Í lok ræðu sinnar ávarpaði Hjalti Jón Sveinsson brautskráningarnema með þessum orðum:
“Á stund sem þessari langar mig að brýna fyrir ykkur nokkur mikilvæg gildi – eins og það að bera virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Að sýna samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og vera æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við. Hlustið á sjónarmið annarra. Umgangist alla þá er á vegi ykkar verða af sömu alúð – háa sem lága.
Hafið hugfast að ekkert það starf sem ykkur verður falið er svo ómerkilegt að það eigi ekki skilið að vera leyst af hendi af fyllstu alúð og samviskusemi. Verið trú yfir því sem ykkur er treyst fyrir – í stóru sem smáu.
Berið virðingu fyrir og verið trú uppruna ykkar og heimabyggð – leggið alúð við móðurmálið og hæfileikana sem ykkur eru í blóð bornir."

Nýjast