Heildarframkvæmdum verði lokið vorið 2024
gunnar@vikubladid.is
Sigrún Björk Jakobsdóttir framkvæmdastjori Isavia Innanlandsflugvalla segir í samtali við Vikublaðið að viðbygging við flugstöðina á Akureyri muni rísa von bráðar, von sé á stáli í grind hússins í byrjun maí.
,,Það tekur síðan nokkra mánuði að reisa húsið og ganga frá því en verkáætlun miðar að því að viðbyggingin verði tilbúin í árslok. Þá verður hafist handa í eldri hlutanum og honum breytt. Það verður töluverð breyting þar hvað varðar flæði farþega og nýtingu rýma. Og heildarframkvæmdin ætti að vera lokið vorið 2024,“ segir Sigrún Björk og bætir við að framkvæmdum við flughlaðið miði vel.
Um þessar mundir er verið að vinna í efra burðarlagi og er útboðsferli á malbiksframkvæmd nú þegar í gangi. Sigrún Björk segir að því megi reikna með að nýja hlaðið verði malbikað í sumar. Einnig verði gengið frá ljósum og slíkum búnaði. „Þannig að það verður hægt að taka það í notkun í byrjun haustsins“.
Viðræður um fyrirkomulag veitingasölu og fríhafnar
Nýverið var auglýst eftir áhugasömum aðilum til samræðna um rekstur á veitingasölu og fríhöfn. Sigrún Björk segir að Isavia hafi haft áhuga á að bjóða hvort tveggja út í einu lagi en koma verði í ljós hvor leiðin verði farin.
„Við bíðum eftir svörum frá þeim sem tóku gögnin og hefjum síðan samtalið um það hvaða leið verður fyrir valinu. Þarna verður mjög áhugavert rekstrartækifæri í boði fyrir réttan aðila því að við sjáum aukinn áhuga á Akureyrarflugvelli frá erlendum flugfélögum sem vonandi verða að veruleika á næstu árum“, útskýrir hún.
Gert ráð fyrir fjölgun lóða
Breytingartillaga á deiliskipulagi hefur verð lögð inn til Akureyrarbæjar en samkvæmt tillögunni verður lóðum fjölgað fyrir minni flugskýli og jafnframt verði skilgreindar þrjár lóðir vestan við nýja hlaðið fyrir stór flugskýli. „Við erum að vonast eftir fjármunum á næstu samgönguáætlun til að gera þær lóðir byggingarhæfar og þá verða þær auglýstar í framhaldinu og það verður áhugavert að sjá hvort að það verði eftirspurn eftir því að byggja stór skýli á flugvellinum. Þannig að ég er bara mjög bjartsýn á vöxt flugvallarins og framtíð hans,“ segir Sigrún Björk að lokum.