20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra óskar eftir svörum
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra óskað eftir svörum frá Akureyrarbæ og Vegagerðinni um til hvaða aðgerða hefði verið gripið til að draga úr umferðarhávaða í bænum frá því aðgerðaráætlun gegn hávaða var fyrst útbúin árið 2015.
Leifur Þorkelsson heilbrigðisfulltrúi segir að alltaf sé eitthvað um kvartanir vegna hávaða, en þær hafi ekki endilega aukist upp á síðkastið. „Það sem vakti fyrir heilbrigðisnefndinni var einfaldlega að fá upplýsingar um það frá bænum og Vegagerðinni til hvaða aðgerða hefur verið gripið í þessum efnum. Vegagerðin hefur svarað okkur og staðfest í sínu svari að engar aðgerðir hafi farið fram á hennar vegum frá árinu 2015, en við bíðum eftir svari frá Akureyrarbæ, það mun vera í vinnslu þar,“ segir Leifur.
Í svari Vegagerðar segir ennfremur að Akureyrarbær hafi á þessu tímabili séð um uppsetningu hljóðveggs við Sjónarhól, samhliða uppbyggingu göngu- og hjólastígs meðfram Hörgárbraut
Undir Veggerðina heyrir þjóðvegur 1 Hörgárbraut, Glerárgata, Drottningarbraut og hluti Borgarbrautar, en aðrar götur þar sem umferðarhávaði er viðvarandi heyra undir Akureyrarbæ. Vegir á Akureyri þar sem umferð fer yfir 3 milljónir ökutækja á ári eru talsvert margir. Fram kemur í aðgerðaráætlun Akureyrarbæjar vegna hávaða sem nær til árabilsins 2018 til 2024 að bærinn muni ráðast í skoðanir á ákveðnum aðgerðum með því skilyrði að fjárveiting fáist frá ríki og bæ. Þar eru nefndar íbúðir við Glerárgötu, milli Strandgötu og Hvannavalla og íbúðir við Hörgárbraut milli Undirhlíðar og Borgarbrautar.
Sama setningin orðrétt
Í aðgerðaráætlun fyrir árin 2015 til 2020 kemur fram að íbúar í alls 1.532 íbúðum hafi búið við hávaða sem er yfir viðmiðunargildum reglugerðar um hávaða. Segir Leifur að í þeirri aðgerðaráætlun komi fram að fyrst verði horft til svæða þar sem hljóðstig reiknist hvað hæst og engar vegaframkvæmdir eru fyrirhugaðar. „Í þeirri aðgerðaráætlun sem nú er væntanlega verið að vinna eftir kemur þessi sama setning fram orðrétt,“ segir hann. „Jafnframt að ekki hafi verið lagt til sérstakt fjármagn í framkvæmdir til að sporna við útbreiðslu hávaða í rótgrónum hverfum, en þar er vandinn mestur.“