20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra Verkefnum fjölgar en óbreytt starfsmannahald
Verkefnum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra hefur fjölgað en skortur er á starfsfólki, starfmannafjöldi hefur verið óbreyttur til fjölda ára.
Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri segir að aukin verkefni megi m.a. rekja til íbúafjölgunar og aukinnar ferðaþjónustu. Þá hafi HNE gert samning við Matvælastofnun um framsal verkefna frá stofnuninni yfir til HNE. Þá bendir hann á að verkefnum vegna númerslausra bíla og umgengni utanhúss hafi fjölgað talsvert á undanförnum árum.
„Núna eru rúmlega 300 starfsleyfisskyld fyrirtæki á hvert stöðugildi hjá HNE en hjá öðrum heilbrigðiseftirlitssvæðum á Íslandi eru rúmlega 170 fyrirtæki á hvert stöðugildi að meðaltali. Í ljósi þessa ákvað Heilbrigðisnefnd á síðasta fundi sínum að við gerð næstu fjárhagsáætlunar yrði gert ráð fyrir að minnsta kosti einu stöðugildi til viðbótar hjá embættinu,“ segir Leifur en hvergi annars staðar á landinu er fjöldi eftirlitsskyldra fyrirtækja á hvert stöðugildi hærri en hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.