Haldið upp á afmæli Potters á Amtsbókasafninu
Góðvinur barna, bókasafna (já og margra fullorðinna) sjálfur Harry Potter, á afmæli á mánudaginn 31. júlí. Líkt og hefð er orðin mun Amtsbókasafnið á Akureyri fagna deginum með pompi og prakt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Amtsbókasafninu.
Viðburðurinn fer fram milli kl. 15-17 og á þeim tíma geta gestir tekið þátt í skrímslabókasmiðju, ratleik, spurningakeppni og ýmisskonar föndri. Auk þess verður hægt að skoða sýninginuna Töfrum líkast, þar sem ýmsir munir úr galdraheiminum verða til sýnis.
Gestir eru eindregið hvattir til þess að mæta í búningum.
Potterdagurinn mikli var fyrst haldinn hátíðlegur á Amtsbókasafninu 2017 og hátt í 1000 manns hafa sótt viðburðinn ár hvert. Reiknað er með miklu stuði aftur á mánudag, þegar leikurinn verður endurtekinn.