Hafdís sigraði í Bláalónsþrautinni

Hafdís Sigurðardóttir sigurvegari í Bláalónsþrautinni efst á palli, með henni frá vinstri Bríet Kris…
Hafdís Sigurðardóttir sigurvegari í Bláalónsþrautinni efst á palli, með henni frá vinstri Bríet Kristý Gunnarsdóttir og lengst til hægri Silja Rúnarsdóttir Mynd aðsend

Um helgina fór fram elsta og fjölmennasta fjallahjólakeppni landsins, Bláalónsþrautin. Keppnin fer þannig fram að ræst er í Hafnarfirði og hjólað eftir malarvegum að Bláalóninu um 60 km. leið.

Nokkrir norðlendingar voru  mættir á ráslínu og má þar helst  nefna Íþróttakonu Akureyrar, Hafdísi Sigurðardóttir úr HFA sem gerði sér lítið fyrir og sigraði í  kvennaflokki með nokkrum yfirburðum á sínu fyrsta fjallahjólamóti. Það gerði hún þrátt fyrir að hafa þurft að laga sprungið dekk á leiðinni en 13 mínútur liðu þar til  næsti keppandi kom í mark.  

Verðlaunapallurinn í kvennaflokki var vel mannaður norðankonum í ár en á eftir Hafdísi kom Bríet Kristý Gunnarsdóttir og í þriðja sæti Silja Rúnarsdóttir en báðar eru þær að norðan þó að í dag séu þær búsettar í Reykjavík og  keppi undir merkjum Tinds hjólafélags.

Í karlaflokki sigraði Ingvar Ómarsson úr Breiðablik sem hefur verið ósigrandi í mótum á Íslandi undanfarin á en fremstur Akureyringa kom Stefán Garðarsson sem lenti í 13. sæti og var allt mótið í samfloti með mörgum af sterkustu hjólurum landsins.

Mynd Hörður Ragnarsson

Nýjast