20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Hafði mestan áhuga á að mynda húsdýrin og bændafólkið“
Ljósmyndasýning Atla Vigfússonar, „Kýrnar kláruðu kálið“ var opnuð sl. laugardag í Safnahúsinu á Húsavík. Undirtitill sýningarinnar er Bændur og búfé – samtal manns og náttúru – óður til sveitarinnar.
Á opnuninni var margt um manninn, en á sýningunni eru 100 ljósmyndir sem hann hefur tekið á undanförnum árum og flestar þeirra hafa birst í Morgunblaðinu, en Atli var fréttaritari blaðsins í meira en tuttugu ár. Myndirnar eru allar í lit og í stærðinni 30x40 cm. Þá eru einnig sýnishorn úr greinasafni Morgunblaðsins af textum sem Atli hefur skrifað og blaðagreinum eins og þær birtust. Í myndasafni Morgunblaðsins á netinu gefur að líta yfir 600 myndir sem hafa birst og í greinasafninu eru yfir 400 greinar.
Byrjaði á Degi
Atli segir að það hafi verið nokkur aðdragandi að þessari sýningu og með henni vilji hann sýna fólki inn í hugarheim sinn auk þess sem 25 ár í samfylgd með Morgunblaðinu séu nokkur tímamót. Hann segir að það hafi verið tilviljun að hann hafi farið út í að vera fréttaritari. „Auðvitað líður nú að leiðarlokum eftir öll þessi ár. Þetta byrjaði raunar með því að ég skrifaði töluvert af greinum fyrir Dag á Akureyri. Þetta voru tveir greinaflokkar þ.e. Bændur og búfé og Brot úr sögu bænda, alls um 50 greinar. Þá fékk ég smá innsýn inn í þennan heim og fékk mikla hvatningu til þess að halda áfram sem og varð,“ segir Atli og bætir við að áhugi hans á að mynda húsdýr fljótt tekið yfir.
„Það kom snemma í ljós að ég hafði mestan áhuga á að mynda húsdýrin og bændafólkið og reyndi fljótt að festa á mynd samtölin á milli manna og dýra. Það er mikill kærleikur sem dýrin sýna okkur og þau treysta okkur. Sambandið er sterkt og nokkuð margar myndir á sýningunni eru einmitt að sýna þetta,“ segir Atli auk þess sem litaafbrigði og margbreytileiki þessara dýra sé svo mikil og merkileg sköpun.
Sveitalífið heillandi
Hann segir að þetta líf í sveitunum hafi alltaf heillað sig og samfara starfi bóndans hafi það líka gefið honum mikið að geta stundum farið í sunnudagsbíltúr með fjölskyldunni og gert skemmtilega blaðagrein af bændum og búfénaði. Hann segir að frá því að hann opnaði augun sem barn hafi hann haft áhuga á húsdýrunum. Smábarn vildi hann í fjósverk þó svo að það yrði að geyma hann í stíu hjá litlu kálfunum til þess að hann færi sér ekki á voða. Hann segist vera búinn að mjólka kýr í rúmlega 50 sumur, hins vegar hafi hann verið við nám í tíu vetur annarsstaðar og þó tækifærin á öðrum vettvangi hafi verið mörg, þá hafi hann ekki fundið neitt sem gæti komið í staðinn fyrir það að vera bóndi á bújörð. „Og ég er ennþá svolítið barn í mér því að ég hef mjög gaman að sjá nýfædda kálfa sem eru fallegir á litinn,“ segir Atli og brosir.
Titill sýningarinnar, Kýrnar kláruð kálið, er tilvitnun í blaðagrein sem var skrifuð haustið 2016 um bóndann á Hólum í Reykjadal, Glúm Haraldsson, sem nýlega er látinn. „Heimsóknin til hans var eftirminnileg og var svo sérstakt og gefandi að sjá hvað hann hafði frábæra nálgun við sína gripi sem er svo mikilvægt. Þannig gefa dýrin mikið af sér, bæði í afurðum og í kærleika,“ segir Atli að lokum
Sýningin er opin þriðjudaga-laugardaga til 29.apríl. Þessa sýningu ætti engin að láta fram hjá sér fara.