Hafa þungar áhyggjur af framtíð SAk

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd/Þorgeir Baldursson.
Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd/Þorgeir Baldursson.

Í yfirlýsingu sem fagráð Sjúkrahússins á Akureyri (SAk)  sendi frá sér í dag er þungum áhyggjum lýst um framtíð SAk náist ekki að laga fjárhagsstöðu þess. Fagráðið telur að auka þurfi fjármagn til sjúkrahússins til þess að viðhalda þjónustu og þekkingu sem fyrir er og tryggja nauðsynlega framþróun starfseminnar. Sjúkrahúsið á Akureyri þjónustar stórt svæði á Norður- og Austurlandi. Íbúarnir treysta á öruggt aðgengi að þeirri fjölþættu þjónustu sem sjúkrahúsið veitir.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Fagráð lýsir yfir þungum áhyggjum af framtíð Sjúkrahússins á Akureyri náist ekki að laga fjárhagsstöðu þess. Fagráð er þverfaglegt ráð sem skipað er fulltrúum ólíkra fagstétta innan sjúkrahússins. Fagráðið telur að auka þurfi fjármagn til sjúkrahússins til þess að viðhalda þjónustu og þekkingu sem fyrir er og tryggja nauðsynlega framþróun starfseminnar.

Sjúkrahúsið á Akureyri þjónustar stórt svæði á Norður- og Austurlandi. Íbúarnir treysta á öruggt aðgengi að þeirri fjölþættu þjónustu sem sjúkrahúsið veitir. Stækkandi ferðaþjónusta reiðir sig á aðgang að þjónustu SAk. Sjúkrahúsið er alþjóðlega gæðavottað og býr í dag yfir mannauði og þekkingu sem þarf að hlúa að, erfitt væri að vinna upp tap á mannauði væru einingar í þjónustu og starfsemi skertar. Sjúkrahúsið á Akureyri er varasjúkrahús Landspítala og þarf því ávallt að vera vel í stakk búið til þess að taka við sjúklingum þegar neyðarástand skapast, eins og sýndi sig í Covid faraldrinum.

Fagráð bendir á þann sparnað sem það er fyrir þjóðfélagið að fólk geti sótt sem mesta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð eða nálægar byggðir. Enginn sparnaður er í því að flytja þjónustu sem nú er veitt á SAk yfir á Landspítalann. Af því hljótast óþægindi fyrir sjúklinga og aðstandendur auk þess sem kostnaðurinn færist aðeins til milli eininga. Það er ekki í samræmi við heilbrigðisstefnu stjórnvalda. Landsmenn allir þurfa á þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri að halda.“

Nýjast