Hætti á sjónum og fór að smíða leikföng
Hermann Ragnarsson stundaði sjómennsku frá barnsaldri þar til hann lét staðar numið fyrir um tveimur árum síðan. Það voru auðvitað mikil viðbrigði fyrir hann að hætta á sjónum og hann notar tímann m.a. til að smíða leikföng og ýmsa skrautmuni úr tré. Blaðamaður Vikudags.is hitti Hermann á leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík þar sem hann var kominn til að færa börnunum bísnin öll af vönduðum tréleikföngum að gjöf.
Þarna gaf að líta gröfur og vörubíla bæði stóra og smáa sem og þyrlur og ýmislegt annað. Börnin kunnu vel að meta þessar gjafir Hermanns og ekki var laust við að það væri örlítill rígur um stærstu bílana.
Blaðamaður gaf sig á tal við Hermann og fékk að elta hann heim á vinnustofuna og fékk að ræða við hann um þetta skemmtilega áhugamál.
Inni á heimili Hermanns og konu hans Dómhildar Antonsdóttur úir og grúir af handverki hans. Leikföngin taka sitt pláss en það er margt annað sem Hermann hefur smíðað; hann tekur fram stærðar veggklukku af stofuveggum sem hann bjó til úr rekaviði. Hann dregur fram lítil þrívíddarpúsl sem eru skorin út af mikilli nákvæmni. Þarna eru útskornir hvalir og blóm. Þá sýnir hann mér ótrúlega fallegar skrautskálar og kertastjaka sem hann segist hafa búið til í rennibekk úr rekaviði. „Findu lyktina af þessu,“ segir Hermann og réttir mér fallegan kertastjaka. „sjávarilmurinn heldur sér ef maður ber ekkert á þetta,“ bætir hann við. Og það leynir sér ekki; blaðamaður sniffar af viðnum og finnur dásamlega ilmblöndu af nýunnum viði og Norður-Atlandshafinu.
Hermann segir að hann geri þetta fyrst og fremst sér til gamans og til að hafa eitthvað við að vera. Barnabörnin hafa notið góðs af leikfangasmíðinni og svo sagðist hann hafa verið með muni til sölu í prónakofanum á hafnarsvæðinu á Húsavík í sumar. Þá var hann einnig með vörur á jólamarkaði á Húsavík og í Mývatnssveit fyrir síðustu jól.
Það segir sig sjálft að vönduð handgerð leikföng sem og aðrir munir sem hann býr til eiga erfitt uppdráttar í samkeppni við fjöldaframleiddar vörur úr plasti. Hermann segist vel finna fyrir því, það má ekkert kosta.
Leikföngin sagar Hermann út og setur saman eftir uppskriftum sem hann kaupir. Þá býr hann til fallegar skálar og aðra skrautmuni sem hann rennir úr rekavið. Hönnunina að flestu finnur hann á netinu, en hannn hefur heldur ekki langt að sækja hæfileikana því faðir hans Ragnar Hermannson smíðaði allskonar fígúrur og fleira úr tré eins og sjá má hér fyrir neðan.