Gul viðvörun vegna veðurs!
Veðurstofa íslands hefur gefið út viðvörun vegna veðurs sunnudag og mánudag og má segja hreint út að framundan sé hreint skítaveður sem gengur ekki niður fyrr en sinni hluta mánudagsins.
Þessi spá gildir frá miðnætti í kvöld. ,, Norðvestan 10-18 m/s og slydda eða snjókoma á fjallvegum, hvassast austantil. Skyggni getur orðið mjög takmarkað og hálka líkleg. Líkur á vetrarfærð, þ.a. ekki ætti að leggja í langferðir á vanbúnum bílum.
15 maí. kl. 08:00 – 18:00
Norðan og norðvestan 8-15 m/s og snjókoma eða skafrenningur og lítið skyggni með köflum, einkum á fjallvegum. Varsamt vanbúnum ökutækjum.
Það má búast við samkvæmt þessu að færð muni spillast á fjallvegum og því vert að hafa í huga að kynna sér vel færð áður en lagt verður i ferðalög.
Kannski rétt að rifja upp kveðskap Þuru gömlu í Garði en hún spurði
Stjórnar þú þessu, góði Guð?
Gerirðu þennan ófögnuð
að fylla heiminn með frosti og hríð?
Finnst þér þetta ekki bölvuð tíð
í maí?
Manstu eftir litlu lömbunum
léttstígu kátu fuglunum
og blessuðum ungu blómunum
og börnum sem elska vorið
í maí?