Guðni Bragason í nærmynd í Skarpi
Á dögunum sendi tónlistarmaðurinn og Húsvíkingurinn Guðni Bragason frá sér geisladiskinn XL. Diskurinn inniheldur 7 lög eftir Guðna með textum eftir Odd Bjarna Þorkelsson, Sævar Sigurgeirsson, bibba og Jóhann Kristinn Gunnarsson.
Sjálfur sér Guðni um söng og raddir og spilar á trommur, bassa, kassagítar, hljómborð og trompet, en aðrir hljóðfæraleikarar eru Jens Hansson á saxófón og þeir Pétur Valgarð Pétursson og Vignir Snær Vigfússon á rafgítara. Það er því óhætt að segja að það sé valinn maður í hverju rúmi.
Guðni fylgir útgáfunni eftir með tvennum útgáfutónleikum, þeim fyrri á Café Rosenberg í Reykjavík þann 27. september og svo á Ýdölum 1. október.
Að sögn Guðna gekk forsala á XL vel, en útgáfa hans var fjármögnuð á hópfjármögnunarsíðunni Karolinafund. Hann reiknar svo með að ganga í hús á næstunni og bjóða diskinn til sölu.
„Ég ólst einfaldlega upp við tónlist. Pabbi var auðvitað söngvari með hljómsveitum í bænum, en spilaði einnig á bassa, var liðtækur á hljómborð en trommurnar voru hans aðalhljóðfæri og ég heillaðist því eðlilega fyrst að þeim,“ segir Guðni Bragason m.a. í ítarlegu viðtali við Skarp sem kemur út í dag. Þar fer Guðni yfir tónlistarferilinn og margt fleira.