Grunnskólar verða settir í næstu viku
Grunnskólar Akureyrarbæjar verða settir þriðjudaginn 22. ágúst. Algengt er að nemendur 1. bekkjar séu boðaðir með foreldrum sínum í samtöl við umsjónarkennara sína í upphafi skólaárs og því sé skólasetningin sjálf eingöngu ætluð nemendum í 2. – 10. bekk.
Samkvæmt upplýsingum frá Kristínu Jóhannesdóttur sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs hefja nú skólagöngu 231 börn í 1. bekk, en heildarfjöldi grunnskólabarna á Akureyri er 2.561 í upphafi skólaárs 2023 en til samanburður voru nemendur 1. bekkjar 234 talsins í fyrra og heildarfjöldi nemenda 2.603.
Eins og áður útvegar Akureyrarbær nemendum ritföng og önnur námsgögn og er því alla jafna eingöngu þörf á að foreldrar útvegi börnum sínum skólatösku og íþrótta- og sundfatnað.
Grunnskólar Akureyrarbæjar hafa menntastefnu Akureyrarbæjar að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Þá er einnig vert að minna á að Akureyrarbær vinnur markvisst að innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, en skv. þeim lögum eiga börn og foreldrar sem á þurfa að halda að hafa aðgang að samþættri þjónustu án hindrana.