20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Grímsey iðar af lífi yfir sumartímann
Anna María Sigvaldadóttir hefur búið í Grímsey frá árinu 1990 eða í 31 ár. Óhætt er að segja að hún sé athafnakona þar sem hún er að vasast í ýmsu á eynni og stekkur í hin og þessi störf. Hún segist kunna afar vel við sig á hjara veraldar. „Hér finnst mér dásamlegt að vera, annars væri ég varla búin að vera hér svona lengi,“ segir Anna María sem er Norðlendingur vikunnar. „Hér er allt gott að frétta. Það var verið að bólusetja okkur hér í eyjunni nýverið, alls 16 manns sem áttu eftir að fá bólusetningu og alveg magnað að vera orðin full bólusett.“ Anna María segir mikið líf færast yfir Grímsey þegar vorar. „Hér lifnar allt mikið við í maí þegar fuglarnir mæta til okkar og bjargfuglinn fer að verpa og eggjatakan á fullu. Núna er strandveiðin að byrja og þá koma hér sjómenn og lífga upp á eyjalífið. Ferjan kemur orðið fimm sinnum í viku og með henni koma ferðamennirnir og vistir til okkar. Dagurinn er orðin svo bjartur og næturnar líka og bara allt eins og það á að vera,“ segir Anna María.