27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Grenndarkennsla opnar huga upprennandi kennara
Miðvikudaginn 19. október sl. fóru nemendur á öðru ári í kennarafræði við Háskólann á Akureyri í vettvangsferð um Eyjafjarðarsveit. Ferðin var hluti af námskeiði um grenndarkennslu og tilgangurinn bæði að fræðast um menningu og náttúru sveitarinnar svo og að fá hugmyndir um svæðistengd viðfangsefni í skólum. Viðkomustaðir voru miðaldaþingstaður Eyfirðinga við Eyrarland, Saurbæjarkirkja, Grundarreitur og Hælið – setur um sögu berklanna í Kristnesi. Bragi Guðmundsson prófessor er umsjónarkennari námskeiðsins og ber hitann og þungann af menningarhlutanum. „Menning er fjölþætt og á sér margar birtingarmyndir. Sumt sjáum við eins og alls konar mannvirki og minnismerki en annað leynist sjónum okkar. Svæðisbundinn kveðskapur, sögur og sagnir eru hvarvetna til, örnefni eru allt um kring og bústaðir álfa og huldufólks eru víða svo fáein dæmi séu tekin.“
Nemendur eru iðulega hrifnir af því að nýta kennslulotur utan kennslustofunnar: „Ég held að þessi ferð muni nýtast mér í mínu starfi sem kennari þar sem ég fékk innblástur um hvað er hægt að gera margt sem þarf ekki að kosta mikið. Ég er á leikskólakjörsviði og vinn með elstu börnum í leikskóla og finnst mjög spennandi að kenna þeim meira um okkar heimabyggð,“ segir Telma Björk Gunnarsdóttir, nemandi í kennarafræði.
Ekki leita langt yfir skammt
Veðrið lék við þátttakendur og Eyjafjörðurinn skartaði sínu fegursta. „Ferðin var í senn skemmtileg og fróðleg. Okkur var dröslað um fjörðinn í rútu á meðan Bragi og Brynhildur létu rigna yfir okkur staðreyndum, sögum og öðrum fróðleik. Saurbæjarkirkja, tóftir og berklasafnið á Kristneshæli voru meðal viðkomustaða hjá hópnum. Maðurinn sem tók á móti okkur á berklasafninu var með skemmtilegri safnvörðum sem ég hef lent í. Að fá tækifæri til að upplifa grenndarkennslu á eigin skinni setur námið í betra samhengi við raunveruleikann og vekur mann sjálfan til umhugsunar um eigið nærumhverfi. Sú hugsun opnar augu manns til að sjá sóknarfæri í eigin nærumhverfi,“ segir Tómas Guðmundsson, nemandi í kennarafræði.
Menningu og náttúru fléttað saman
Markmið námskeiðsins er meðal annars að nemendur öðlist færni í því að flétta vinnu með næsta nágrenni skóla inn í nám og kennslu í öllum aldurshópum og námssviðum. Brynhildur Bjarnadóttir, sem sér um náttúruhluta námskeiðsins, leggur mikið upp úr náttúruvísindum og útikennslu og segir það einstakt tækifæri að gefa upprennandi kennurum tækifæri til að nota umhverfið enn meira í miðlun sinni: „Að efla læsi nemenda á nánasta umhverfi sitt og fá þá til að sjá möguleikana sem felast í kennslu í nærumhverfi sínu, eru þættir sem mikið er unnið með í námskeiðinu Grenndarkennslu. Nemendur læra að greina plöntur, þekkja fugla og umfram allt að greina nærumhverfi sitt þannig að þeir geti nýtt það til kennslu um heimabyggðina. Skógur, fjara og mólendi eru dæmi um náttúruleg umhverfi þar sem hægt er að bjóða upp á kennslu í nánast hvaða fagi sem er. Útikennsla býður upp á fjölbreytta kennslumöguleika og eykur umhverfisvitund nemenda.“
Þingstaðurinn forni þar sem Bragi Guðmundsson umsjónarkennari námskeiðsins og sögukennari leiddi mannskapinn.